Það hefur ýmislegt gengið á í herbúðum körfuboltadeildar KR síðan kórónaveiran skall með þunga á heiminn í mars síðastliðnum. Fljótlega eftir að ákveðið var að hætta keppni í körfuboltanum hér heima vegna faraldursins, var tilkynnt að þjálfarar meistaraflokka félagsins, Benedikt Rúnar Guðmundsson og Ingi Þór Steinþórsson, myndu hætta störfum hjá félaginu. Ekki var mikið fjaðrafok í kringum brottför Benedikts, en lesa mátti úr viðbrögðum Inga Þórs við uppsögninni að hann væri allt annað en sáttur við viðskilnaðinn.

Vitað var að reynslumestu leikmenn karlaliðsins lægju undir feldi og Darri Freyr Atlason, sem ráðinn var þjálfari KR karlamegin, sagði í samtölum við fjölmiðla eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu að hann myndi gefa eldri leikmönnum liðsins andrými til að hugsa næstu skref á ferli sínum.

Endaði það svo að Laugarnesgengið tvístraðist þar sem Helgi Már Magnússon ákvað að vera um kyrrt, en Jón Arnór Stefánsson söðlaði um yfir lækinn og gekk til liðs við Val.

Jakob Örn Sigurðarson ákvað að vera áfram í Vesturbænum og bróðir hans, Matthías Orri, og Björn Kristjánsson ætla að gera slíkt hið sama. Brynjar Þór Björnsson er tekinn við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá körfuboltadeildinni og ætlar að spila áfram. Þá munu Veigar Áki Hlynsson, Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Þorvaldur Orri Árnason taka slaginn með uppeldisfélaginu.

Sprengju var varpað inn í körfuboltasamfélagið á Íslandi í upphafi þessarar viku þegar Kristófer Acox tilkynnti að ágreiningur hans við körfuboltadeild KR væri kominn á það stig að hann ætlaði að yfirgefa sína heimahaga. Mátti lesa úr Instagram-færslu Kristófers að deilan hefði verið bæði langvinn og hörð. Heimildir Fréttablaðsins herma að deilan sé komin til lögmanna sem séu að freista þess að finna farsæla lausn á málinu.

KR-ingar sendu frá sér yfirlýsingu á mánudagskvöldið þar sem félagið sagði sig fullvisst um að önnur félög hefðu borið víurnar í samningsbundinn leikmann sinn. Það væri ámælisvert að mati Vesturbæinga en engar aðgerðir voru boðaðar til þess að leita réttar þeirra í þeim efnum.

Kristófer hefur verið sterklega orðaður við Valsmenn, en Hlíðarendafélagið fann sig knúið til þess að bregðast við fréttaflutningi þar sem fram kom að félagið væri í viðræðum við samningsbundinn leikmann. Hlíðarendafélagið sagði það ekki á rökum reist. Kristófer samdi við KR fyrir ári síðan en sá samningur, sem var til tveggja ára, var ekki sendur inn til körfuboltasambands Íslands, KKÍ, og fordæmi dómstóls sambandsins þar sem málin standa þannig eru á þá leið að leikmaðurinn sé laus allra mála. Stjarnan, Grindavík og Tindastóll og Þór Akureyri hafa einnig verið nefnd til sögunnar sem líklegir næstu áfangastaðir á ferli Kristófers.

Breyttar forsendur í væntingum hjá kvennaliðinu á leiktíðinni

Kvennamegin hefur landslagið breyst enn meira en hjá karlaliðinu í Vesturbænum og útlit fyrir að liðið sem var í baráttu um deildarmeistaratitilinn síðasta vor og tapaði í bikarúrslitum fyrir Skallagrími muni vera á hinum enda töflunnar á komandi keppnistímabili.

Hildur Björg Kjartansdóttir er farin í Val, Sanja Orozovic í Skallagrím, Sóllilja Bjarnadóttir í Breiðablik og Ástrós Lena Ægisdóttir er farin í nám til Danmerkur. Margrét Kara Sturludóttir mun ekki leika með KR-liðinu en mun líklega vinna bak við tjöldin með liðinu og Unnur Tara Jónsdóttir er í tímabundnu leyfi vegna anna í vinnu. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Danielle Rodriguez ákvað að einbeita sér að þjálfaraferli sínum. Danielle er komin inn í þjálfarateymi karlaliðs Stjörnunnar og í þjálfun yngri flokka þar, ásamt því að vera aðstoðarþjálfari Benedikts með íslenska kvennalandsliðið.

Leikmannahópur liðsins er eins og sakir standa þunnskipaður og óreyndur í meistaraflokkskörfubolta á hæsta getustigi. Spænski þjálfarinn Francisco Garcia tók við keflinu af Benedikt og KR hefur samið við Taryn McCutcheon, frá Bandaríkjunum, og finnsku landsliðskonuna Anniku Holopainen um að leika með liðinu. Þá verða Perla Jóhannsdóttir og Eygló Kristín Óskarsdóttir í lykilhlutverkum hjá liðinu í vetur. Það verður spennandi að sjá framvindu mála í Vesturbænum fram að því að deildakeppnin hefst í byrjun október.