Þrátt fyrir að raða inn mörkum fyrir félagslið sitt, Real Madrid, vill hvorki fæðingarland Karim Benzema, Frakkland, eða Alsír, þaðan sem hann á ættir að rekja nýta krafta hans með landsliðinu. Það hefur þó ekkert með hæfileika hans inni á knattspynuvellinum að gera. Tilraun hans til þess að dýpka vasa sinn með því að fjárkúga liðsfélaga sinn varð Benzema að falli.

Benzema fæddist í Lyon en faðir hans er fæddur í Tigzirt á meðan móðir hans er borin og barnfædd Lyonmær. Yngri bræður Benzema, Gressy og Sabri eru einnig knattspyrnumenn en þeir leika á áhugamannastigi í Frakklandi. Benzema gældi við það árið 2006 að leika með alsírska landsliðinu en sagði um leið að hann vildi helst leika með því franska.

„Hjarta mitt segir mér að spila með Alsír þar sem foreldrar mínir eiga sterka tengingu við það land. Aftur á móti samræmist það betur íþróttalegum metnaði mínum að leika með franska landsliðinu," sagði Benzema í samtali við franska fjölmiðla í desember árið 2006 en hann var á þeim tíma gagnrýndur fyrir að syngja ekki með franska þjóðsögnum í aðdraganda leikja liðsins.

Fjárkúgun hans í garð Mathieu Valbuena sem var síðasta hálmstráið á landsliðsferli Benzema var ekki í fyrsta skipti sem hann komst í kastljós fjölmiðla fyrir annað en afrek sín inni á knattspyrnuvellinum. Fjallað var um það í apríl árið 2010 að hann væri einni fjögurra leikmanna franska landsliðsins sem hefðu keypt sér þjónustu vændiskvenna í næturklúbbi í París.

Sýknaður af kynferðislegu samneyti sínu við ólögráða stúlku

Með honum í för þar voru að sögn franskra fjölmiðla, Franck Ribéry, Sidney Govou og Hatem Ben Arfa og Benzema. Benzema var grunaður um að hafa haft samfarir við 16 ára stelpu en málið á hendur Benzema og Ribéry var látið niður falla af frönskum dómstólum þar sem dómari þótti skorta sannanir til þess að sakfella þá félaga.

Haustið 2015 var Benzema svo handtekinn af frönskum lögreglyfirvöldum þar sem hann var sakaður um að hafa átt þátt í að kúga fé úr Valbuena með því að hóta að birta kynlífsmynd af honum. Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands á þeim tíma, fordæmdi hegðun Benzema og sagði hana ekki sæma íþróttamanni sem væri fyrirmynd barna og unglinga sem litu upp til hans.

Noël Le Graët formaður franska knattspyrnusambandins tilkynnti það svo í kjölfarið að Benzema væri í tímabundu banni frá því að leika með franska landsliðinu. Það bann gildir enn og Benzema hefur farið þess á leit undanfarið að honum væri heimilt að leika með öðrum landsliðum.

Nú hefur Djamel Belmadi þjálfari Alsír sem gerði liðið að Afríkumeisturum nokkuð óvænt í sumar tjáð sig um hugsanlega komu Benzema í liðið. Belmadi kveðst ánæðgur með þá framherja sem hann hefur til boða eins og staðan er núna og hann hefur ekki áhuga á því að bæta Benzema við í framherjaflóru sína.