Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, mun í kvöld frumsýna hluta þeirrar sveitar sem hann hefur fengið til liðs við síðustu vikurnar þegar liðið etur kappi við Brighton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Kantmaðurinn Hakim Ziyech sem kom frá Ajax síðasta vor er reyndar að glíma við hnémeiðsli og verður ekki með í leiknum og þá er vinstri bakvörðurinn Ben Chilwell sem færði sig um set frá Leicester City tæpur vegna hælmeiðsla.

Hinn reynslumikli varnarmaður Thiago Silva sem söðlaði um frá PSG er hins vegar klár í slaginn og verður að öllum líkindum í hjarta varnarinnar hjá Chelsea.

Þá er mikil spenna fyrir því að sjá hvernig sóknartengiliðurinn Kai Havertz sem hefur vakið athygli fyrir spilamennsku sína hjá Bayer Leverkusen og framherjinn Timo Werner sem hefur gert það gott með RB Leipzig muni pluma sig með Lundúnarliðinu í ensku úrvalsdeildinni.

Kaup Chelsea í sumar hafa líklega aukið þá pressu sem er á árangur hjá Lampard og leiða má líkum að því að minni slaki verði gefinn á því að missa stig á móti liðum á borð við Brigton en var á fyrsta ári hans við stjórnvölinn hjá liðinu.