Talið er að Chelsea hafi nú þegar fundið eftirmann Maurizio Sarri sem knattspyrnustjóra karlaliðs félagsins.

Sarri lét af störfum eftir að síðasta keppnistímabili lauk og fljótlega eftir að það varð ljóst að stjórastarfið var laust var Frank Lampard fyrrverandi leikmaður liðsins orðaður við starfið.

Nú fullyrða enskir fjölmiðlar að Lampard verði opinberaður sem næsti knattspyrnustjóri liðsins á morgun eða einhvern tímann í næstu viku.

Fram kemur í fréttum ensku fjölmiðlanna að Lampard hafi gert munnlegt samkomulag við Roman Abrahamovic um að fá tvær leiktíðir til þess að byggja upp lið sem getur gert harða atlögu að enska meistaratitlinum.

Lampard stóð sig vel í frumraun sinni sem knattspyrnustjóri en hann stýrði þá Derby County í úrslitaleikinn um laust sæti í efstu deild.

Þar laut liðið reyndar í lægra haldi fyrir Aston Villa og leikur áfram í B-deildinni á næsta tímabili.