Adam Lallana hefur samkvæmt enskum fjölmiðlum samþykkt þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið í knattspynu, Brighton, en enski sóknartengiliðurinn mun undirgagnast læknisskoðun hjá félaginu síðar í dag.

Lallana hefur leikið með Liverpool síðan hann kom til félagsins frá Southampton fyrir sex árum síðan en hann kveður Liverpool sem ríkjandi Englandsmeistari, handhafi titilsins í Meistaradeild Evrópu og heimsmeistari félagsliða.

Þessi 32 ára gamli leikmaður lék alls 178 leiki með Liverpool í öll­um keppn­um en hann skoraði í þeim leikjum 22 mörk. Þá hefur Lallana spilað 34 leiki fyrir enska landsliðið. Auk Lallana er Dejan Lovren talinn líklegur til þess að yfirgefa herbúðir Liverpool í sumar en hann er sterklega orðaður við rússneska félagið Zenit frá Pétursborg.

Á móti hefur spænski miðvallarleikmaðurinn Thiago Alcantara sem er á mála hjá þýska liðinu Bayern München verið orðaður við komu til Liverpool.

Brighton hafnaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð en liðið hafði betur gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans hjá Burnley í lokaumferð deildarinnar í gær.