Til að bregðast við háværum röddum um svindl innan skákíþróttarinnar verður læknir viðstaddur í salnum á World Fischer Random mótinu í skák sem hefst í Reykjavík í dag og getur hann krafist að skoða eyru leikmanna í leit að samskiptatækjum.

Með því geti hann komið í veg fyrir að skákmenn geti verið í samskiptum við aðila sem geti komið áleiðis skilaboðum um hvaða möguleikar séu í stöðnuni út frá tölvulíkani.

Þetta kemur fram á vef DW. Einn Íslendingur, Hjörvar Steinn Grétarsson, er meðal átta þátttakenda a mótinu.

Um er að ræða annað keppnisfyrirkomulag en þekkist í hefðbundinni skák. Hægt er að sjá stutt kynningarmyndband hér fyrir neðan.

Mótshaldarar sem eiga von á 100-200 áhorfendum eru búnir að ákveða að raftæki áhorfenda verði bönnuð í keppnissalnum á Berjaya hótelinu. Þegar einstaklingar yfirgefa salinn þurfa þeir að bíða í fimm mínútur eftir því að fá raftækin sín afhent að nýju.

Meðal þátttakenda í mótinu er fimmfaldi Heimsmeistarinn Magnus Carlsen sem vakti heimsathygli á dögunum þegar hann hætti í miðri skák og sakaði andstæðing sinn um að svindla.