Læknirinn Leopoldo Luque, geðlæknirinn Agustina Cosachov auk sex annara í heilbrigðisteymi argentínsku knattspyrnugoðsagnarinnar Maradona eru sakaðir um að hafa valdið dauða hans og munu þurfa að svara til saka í réttarsal.
The Athletic greinir frá þessu í morgun en sakborningarnir eru sakaðir um að hafa ekki sinnt Maradona sem skyldi meðan hann jafnaði sig eftir bráðaðgerð vegna blóðtappa í heila. Ákæran er sú að þetta hafi leitt til dauða hans.
Maradona lést þann 25. nóvember árið 2020, sextugur að aldri. Réttað verður yfir læknunum undir lok árs 2023 eða byrjun árs 2024.

Hann átti ótrúlegan feril sem knattspyrnumaður og varð heimsmeistari með Argentínumönnum árið 1986. Það kom fáum á óvart að Maradona var valinn besti leikmaður mótsins. Á þeim tíma var hann leikmaður Napoli en áður hafði hann slegið í gegn með Argentinos Juniors og Boca Juniors í heimalandinu áður en hann samdi við Barcelona árið 1982. Maradona lék 91 landsleik fyrir Argentínu og skoraði í þeim 34 mörk.
Maradona var kosinn besti leikmaður 20. aldarinnar af FIFA. Hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli eftir að hafa leitt liðið til sigurs í ítölsku deildinni tvisvar, 1987 og 1990. Árið 2000 ákvað félagið að leggja treyju númer 10 til að heiðra argentínska snillinginn. Í Evrópu lék hann með Napoli, Barcelona og Sevilla. Þá er hann í guðatölu í heimalandinu eftir að hafa farið fyrir Argentínumönnum í þeirra fyrsta og eina sigri á HM sem fyrr segir.
Argentínumaðurinn var umdeildur enda glímdi hann við fíkniefnavanda á meðan ferlinum stóð. Eitt frægasta atvik knattspyrnusögunnar þegar hann skoraði með hendinni gegn Englandi í undanúrslitum HM.
Maradona þjálfaði tímabundið eftir að ferlinum lauk og stýrði hann til að mynda argentínska landsliðinu á HM 2010.