Læknirinn Leopoldo Luqu­e, geð­læknirinn Agustina Cosachov auk sex annara í heil­brigði­s­teymi argentínsku knatt­spyrnu­goð­sagnarinnar Mara­dona eru sakaðir um að hafa valdið dauða hans og munu þurfa að svara til saka í réttar­sal.

The At­hletic greinir frá þessu í morgun en sak­borningarnir eru sakaðir um að hafa ekki sinnt Mara­dona sem skyldi meðan hann jafnaði sig eftir bráð­að­gerð vegna blóð­tappa í heila. Á­kæran er sú að þetta hafi leitt til dauða hans.

Mara­dona lést þann 25. nóvember árið 2020, sex­tugur að aldri. Réttað verður yfir læknunum undir lok árs 2023 eða byrjun árs 2024.

Leopoldo Luque, fyrrum læknir Maradona
Fréttablaðið/GettyImages

Hann átti ó­trú­legan feril sem knatt­spyrnu­maður og varð heims­meistari með Argentínu­mönnum árið 1986. Það kom fáum á ó­vart að Mara­dona var valinn besti leik­maður mótsins. Á þeim tíma var hann leik­maður Napoli en áður hafði hann slegið í gegn með Argentin­os Juni­ors og Boca Juni­ors í heima­landinu áður en hann samdi við Barcelona árið 1982. Mara­dona lék 91 lands­leik fyrir Argentínu og skoraði í þeim 34 mörk.

Mara­dona var kosinn besti leik­maður 20. aldarinnar af FIFA. Hann er í guða­tölu hjá stuðnings­mönnum Napoli eftir að hafa leitt liðið til sigurs í ítölsku deildinni tvisvar, 1987 og 1990. Árið 2000 á­kvað fé­lagið að leggja treyju númer 10 til að heiðra argentínska snillinginn. Í Evrópu lék hann með Napoli, Barcelona og Sevilla. Þá er hann í guða­tölu í heima­landinu eftir að hafa farið fyrir Argentínu­mönnum í þeirra fyrsta og eina sigri á HM sem fyrr segir.

Argentínu­maðurinn var um­deildur enda glímdi hann við fíkni­efna­vanda á meðan ferlinum stóð. Eitt frægasta at­vik knatt­spyrnu­sögunnar þegar hann skoraði með hendinni gegn Eng­landi í undan­úr­slitum HM.

Mara­dona þjálfaði tíma­bundið eftir að ferlinum lauk og stýrði hann til að mynda argentínska lands­liðinu á HM 2010.