Íslenska kvennalandsliðið mætir Kýpur í undankeppni HM 2023 í kvöld en kýpverska liðið kemur inn i leikinn eftir að hafa tapað þrettán leikjum í röð.

Undanfarin tvö ár hefur Kýpur leikið tíu leiki, skorað eitt mark og fengið á sig 49 mörk.

Sjö af þessum tíu leikjum voru í undankeppni EM 2022 og þrír síðustu í undankeppni HM 2023.

Kýpverjum tókst að skora mark í fyrsta leik undankeppninnar en það er eina markið sem liðið hefur skorað síðustu tvö ár.

Síðustu tveir leikir liðsins hafa verið erfiðir, 8-0 töp gegn Hollandi og Tékklandi. Markatala liðsins er 1-20 eftir þrjá leiki í riðlakeppninni.