Yfirburðir íslenska kvennalandsliðsins voru algerir í 5-0 sigri á Kýpur í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld en með sigrinum kemst Ísland í annað sæti riðilsins.

Með því er Ísland komið í annað sæti riðilsins eftir að hafa unnið báða leiki þessa landsleikjahlés án þess að fá á sig mark.

Næsti leikur Íslands er einmitt gegn sömu mótherjum ytra eftir rúman mánuð.

Þorsteinn Halldórsson gerði sjö breytingar á liði Íslands frá 4-0 sigrinum á Tékkum fyrir helgi. Aðeins Dagný Brynjarsdóttir, Guðný Árnadóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir héldu sæti sínu í liðinu.

Það var Dagný sem kom Íslandi á bragðið snemma leiks með góðu skallamarki eftir sendingu frá Elísu Viðarsdóttur. Dagný gerði vel á fjærstönginni og skoraði af stuttu færi.

Stuttu síðar bætti Sveindís Jane við forskot Íslands eftir góðan einleik. Sveindís lék á bakvörð kýpverska liðsins og skoraði með góðu skoti úr þröngu færi.

Dagný braut ísinn fyrir Ísland í kvöld
fréttablaðið/valli

Stuttu síðar var boltinn aftur í netinu eftir skot Karólínu Leu en dómari leiksins dæmdi furðulegt brot á Svövu Rós Guðmundsdóttur í aðdraganda marksins.

Það kom ekki að sök því á lokamínútu fyrri hálfleiks komst Karólína á blað og bætti við forskot Íslands.

Ísland bætti tveimur mörkum við forskotið í seinni hálfleik. Sveindís Jane var aftur á ferðinni í upphafi fyrri hálfleiks með góðu skoti.

Tíu mínútum seinna var komið að Alexöndru Jóhannsdóttur sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Ísland sótti allar 90. mínútur leiksins og hefðu mörkin auðveldlega getað verið fleiri en fimm marka sigur Íslands staðreynd.