Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, staðfesti í gær að sambandið væri með til skoðunar kynþáttaníðið sem leikmenn urðu fyrir meðan á leik Englands og Ungverjalands stóð í Búdapest í vikunni. Enska knattspyrnusambandið óskaði eftir því að Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, gripi til aðgerða eftir að Raheem Sterling og Jude Bellingham urðu fyrir kynþáttafordómum á fimmtudaginn. Stutt er síðan UEFA úrskurðaði að Ungverjar skyldu leika tvo leiki fyrir luktum dyrum vegna óláta stuðningsmanna en það nær ekki til leikja í undankeppni HM sem er undir FIFA.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, var einn þeirra sem kölluðu eftir því að Ungverjum yrði refsað eftir að stuðningsmenn Ungverjalands voru með kynþáttaníð í garð Sterlings og Bellinghams í gær en utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, svaraði um hæl að Bretar hefðu sýnt óvirðingu þegar þeir bauluðu á þjóðsöng Ítala á úrslitaleik Evrópumótsins í sumar.