Leikmaður Hamars varð ítrekað í gær á leik Hamars og Sindra á Höfn í gær fyrir kynþáttaníð. Það staðfestir formaður körfuknattleiksdeildar Hamars, Lárus Ingi Friðfinnsson, í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að hann hafi ekki sjálfur verið á leiknum en hafi talað við þjálfara liðsins, Máté Dalmay, sem hafi sagt alla umgjörð leiksins góða og Sindra til sóma, en að einn aðili hafi skyggt á það með áreiti sem allir hafi tekið eftir.
Dómari hefði átt að stöðva leik
„Þetta er hárrétt. Samkvæmt Maté varð leiðindaatvik, eða eins og hann sagði orðrétt: Það var fullur salur, og einn fáviti,“ segir Lárus.
Lárus furðar sig á því að dómarar hafi ekki stöðvað leikinn og vísað manninum úr húsi.
„Það hefði átt að stoppa þetta,“ segir Lárus.
Spurður hvort félagið myndi bregðast frekar við segir hann að þau bíði þess að Sindri gefi eitthvað út um málið.
„Þetta er á heimavelli þeirra og þeirra er skömmin,“ segir Lárus.
Slík atvik ávallt tekin alvarlega
Hallgrímur Óskarsson, formaður Hamars, segir í samtali við Fréttablaðið að sem betur fer komi svona mál ekki oft upp, en að þegar þau komi upp séu þau tekin alvarlega.
„Hvert tilvik er skoðað fyrir sig. Allt svona er tekið mjög alvarlega og brugðist við ef að nokkur minnsta þörf er á að slíkt sé gert. Það er klárt hjá félaginu,“ segir Hallgrímur.
Von á yfirlýsingu frá Sindra
Fréttablaðið leitaði einnig svara hjá fyrirliða og ritara Sindra, Björgvin Hlíðar Erlendsson. Spurður sérstaklega út í það hvers vegna manninum hafi ekki verið vísað af vellinum, segir hann að það sé líklega vegna þess að dómarar hafi ekki heyrt hann hrópa. Hefðu þeir gert það hefði honum verið vísað samstundis af vellinum.
Hann sagði að von væri á yfirlýsingu frá félaginu í kvöld varðandi atvikið.