Leik­maður Hamars varð í­trekað í gær á leik Hamars og Sindra á Höfn í gær fyrir kyn­þátta­níð. Það stað­festir for­maður körfu­knatt­leiks­deildar Hamars, Lárus Ingi Frið­finns­son, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að hann hafi ekki sjálfur verið á leiknum en hafi talað við þjálfara liðsins, Máté Dal­may, sem hafi sagt alla um­gjörð leiksins góða og Sindra til sóma, en að einn aðili hafi skyggt á það með á­reiti sem allir hafi tekið eftir.

Dómari hefði átt að stöðva leik

„Þetta er hár­rétt. Sam­kvæmt Maté varð leiðinda­at­vik, eða eins og hann sagði orð­rétt: Það var fullur salur, og einn fá­viti,“ segir Lárus.

Lárus furðar sig á því að dómarar hafi ekki stöðvað leikinn og vísað manninum úr húsi.

„Það hefði átt að stoppa þetta,“ segir Lárus.

Spurður hvort fé­lagið myndi bregðast frekar við segir hann að þau bíði þess að Sindri gefi eitt­hvað út um málið.

„Þetta er á heima­velli þeirra og þeirra er skömmin,“ segir Lárus.

Slík atvik ávallt tekin alvarlega

Hall­grímur Óskars­son, for­maður Hamars, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að sem betur fer komi svona mál ekki oft upp, en að þegar þau komi upp séu þau tekin al­var­lega.

„Hvert til­vik er skoðað fyrir sig. Allt svona er tekið mjög al­var­lega og brugðist við ef að nokkur minnsta þörf er á að slíkt sé gert. Það er klárt hjá fé­laginu,“ segir Hall­grímur.

Von á yfirlýsingu frá Sindra

Frétta­blaðið leitaði einnig svara hjá fyrir­liða og ritara Sindra, Björg­vin Hlíðar Er­lends­son. Spurður sér­stak­lega út í það hvers vegna manninum hafi ekki verið vísað af vellinum, segir hann að það sé lík­lega vegna þess að dómarar hafi ekki heyrt hann hrópa. Hefðu þeir gert það hefði honum verið vísað sam­stundis af vellinum.

Hann sagði að von væri á yfir­lýsingu frá fé­laginu í kvöld varðandi at­vikið.