Í vikunni stigu fjórar konur, bæði fyrrum snjóbrettakonur og starfsmenn fram og sökuðu Peter Foley, yfirþjálfara bandaríska snjóbrettasambandsins undanfarna áratugi um kynferðislegt ofbeldi.

Í greininni kemur fram að Foley hafi misnotað fyrrum iðkendur, neytt þær til snertinga og kossa ásamt því að krefjast þess að fá að taka mynd af þeim nöktum.

Málið rataði fyrst í fjölmiðla fyrr á þessu ári þegar Callan Chythlook-Sifsof sem keppti fyrir hönd Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 2010 lýsti kynferðisofbeldi af hálfu Foley og kynþáttafordómum af hálfu aðstoðarmanna hans.

Foley var sagt upp störfum í síðustu viku neitar öllum sökum en fjölmargar konur voru tilbúnar að staðfesta sögur kvennana þegar ESPN leitaðist eftir staðfestingum.

Konurnar sendu inn kvörtun til stofnunar í Bandaríkjunum sem tekur á slíkum málum, miðstöð öryggis í íþrótta (e. U.S. Center for SafeSport) sem er ætlað að fylgjast með og taka á málum þar sem það kemur upp kynferðisofbeldi í íþróttum.

Hinn 56 ára gamli Foley hefur verið yfirþjálfari hjá snjóbrettasambandinu í tæp þrjátíu ár og var yfirþjálfari Bandaríkjanna á sjö Ólympíuleikum.Undir hans leiðsögn hafa Bandaríkin unnið til 35 verðlauna í snjóbrettum. á Ólympíuleikunum.

Aldursforseti öldungaþingsins, Chuck Grassley blandaði sér í málið og sendi Skíða- og snjóbrettasambandinu bréf í vikunni þar sem hann lýsti yfir áhyggjum yfir afskiptasemi og trega sambandsins til aðstoðar á rannsókn málsins.

Í bréfinu fullyrti Grassley að sambandið væri að halda eftir upplýsingum og huga að eigin rannsókn í stað þess að fá hlutlausan aðila til að rannsaka málið. Bréfið rataði einnig inn á borð Alríkislögreglunnar.