Styrktaraðilar halda áfram að rifta samningum við kylfinga sem stukku frá borði á PGA mótaröðinni til að semja við LIV-mótaröðina en í gær rifti einn helsti styrktaraðili Bryson DeChambeau samningi sínum við kylfinginn.

Umboðsmaður DeChambeau staðfesti í vikunni að skjólstæðingur sinn myndi skipta um mótaröð á næstunni en þessi nýja mótaröð hefur skapað mikla úlfúð innan golfheimsins.

Veðlánafyrirtækið Rocket Mortgage nýtti um leið tækifærið til að rifta samningi sínum við DeChambeau sem hefur skartað merki fyrirtækisins á klæðnaði sínum undanfarin ár.

Phil Mickelson, eitt þekktasta nafnið sem skipti yfir á LIV-mótaröðina, er meðal annars búinn að missa styrktarsamninga við KPMG, Amstel Light og Callaway og sást í óeinkennisklæddum fatnaði á fyrsta degi mótsins í gær.

Royal Bank of Canada fór sömu leið og Rocket Mortgage og rifti samningi sínum við Dustin Johnson og Graeme McDowell líkt og UPS sem sagði upp samningi sínum við Lee Westwood.