Finnur Freyr Stefánsson, eða Finnur sem allt vinnur eins og hann er kallaður, tilkynnti í gær að hann væri hættur störfum sem þjálfari karlaliðs KR í körfubolta.

Fimm ára samningur hans sem hann skrifaði undir árið 2013 rennur út í sumar og hefur hann ákveðið að draga sig í hlé. Hefur hann starfað við körfuboltaþjálfun hjá félaginu frá 1999 en óvíst er hvert næsta skref hans er.

Finnur tók við liðinu af Helga Má Magnússyni sumarið 2013 og byrjaði af krafti. Á fyrsta ári hans unnust tveir titlar af þeim stóru þremur. Á þessu ári vann KR 30 af 33 leikjum sínum en féll snemma úr leik í bikarkeppninni.

Reyndist þetta aðeins upphafið en uppskeran var sú sama ári síðar, deildar- og Íslandsmeistarar eftir 33 sigra í 39 leikjum í öllum keppnum.

Næstu tvö ár eftir það vann KR alla þrjá stærstu bikarana, deildar- bikar- og Íslandsmeistaratitilinn, en á þessum tímapunkti var KR búið að vinna tíu af tólf titlunum sem í boði voru undir stjórn Finns.

Síðasta tímabilið reyndist erfiðra en oft áður, KR tapaði sjö leikjum og varð ekki deildarmeistari í fyrsta sinn undir stjórn Finns. Þrátt fyrir það tókst honum að stýra KR til sigurs í úrslitakeppninni og landa fimmta Íslandsmeistaratitlinum í röð en það var ellefti bikar hans á aðeins fimm árum.

Er hann sigursælasti þjálfarinn í sögu efstu deildar karla ásamt Sigurði Ingimundarsyni með fimm meistaratitla.

Alls vann hann 155 leiki í deild- bikar og úrslitakeppninni á þessum fimm árum af 189 sem gefur honum 82% sigurhlutfall í leikjunum undanfarin fimm ár.

„Tilfinningin er mjög blendin eftir að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég er sáttur við að hafa ákveðið mig en er um leið sorgmæddur yfir að kveðja stað sem hefur verið mitt annað heimili undanfarna tvo áratugi tæpa,“ sagði Finnur er Fréttablaðið heyrði í honum en honum langar í nýja áskorun.

„Það verður skrýtið að vera ekki að þjálfa úti í KR næsta haust, en mér fannst þetta vera komið gott og tími á nýja áskorun. Þetta hefur verið frábær tími, en undir lokin var komin þreyta í mig og þá fannst mér réttast að stíga frá borði og hleypa fersku blóði að.“

Finnur hefur heyrt af áhuga erlendis. „Það hafa komið fyrirspurnir að utan og ég hef áhuga á að spreyta mig í því en það er aðeins á grunnstigi. Ég er ekki stressaður á því að finna starf strax en er með eyrun opin,“ sagði Finnur og bætti við:

„Nú er kominn tími til að eyða tíma með fjölskyldunni, rækta líkama og sál og vinna í golfsveiflunni.“