Ís­lenska kvenna­lands­liðið í hóp­fim­leikum keppti til úr­slita á Evrópu­meistara­mótinu í Lúxem­borg í dag og endaði liðið í öðru sæti með 53,950 sem var næstum þremur heilum hærri en liðið fékk í undankeppninni. Svíar hafa hins vegar látið tapið gegn Íslandi í fyrra sitja í sér og mættu þær sænsku virkilega öflugar til leiks og tóku Evrópumeistaratitilinn með 55,100 stigum. Danir enduðu í þriðja sæti með 52,550 stig.

Titil­vörn Ís­lenska liðsins hófst ein­stak­lega snemma að þessu sinni en vegna Co­vid-far­aldursins var á­kveðið að halda mótið einungis níu mánuðum eftir síðasta mót en annars er EM á tveggja ára fresti.

Ís­lenska liðið kom inn í úr­slitin í þriðja sæti en miklar liðs­breytingar hafa orðið á liðinu á síðan það vann titilinn í Portúgal í fyrra, litlu munaði þó á fyrsta til þriðja sæti í undan­keppninni og því ljóst að allt gat gerst í dag.

Íslensku stelpurnar voru frábærar á gólfi í dag.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Ís­lensku stelpurnar byrjuðu á gólfi en Ís­land hefur lengi borið af á gófli en hefur góð ein­kunn þar oft skipt sköpum í árangri Ís­lands í hóp­fim­leikum.

Stelpurnar byrjuðu daginn af krafti og gerðu öflugar gólfæfingar. Allt trylltist í höllinni hjá ís­lensku stuðnings­mönnunum þegar þær luku við æfingar sínar en hátt í tvo hundruð Ís­lendingar hafa lagt leið sína til Lúxem­borg til að fylgjast með ís­lensku liðunum.

Lítil en dýr­keypt mis­tök ollu því hins vegar að ein­kunnin 18,950 á gólfinu var ör­lítið undir pari en þó 0,5 hækkun frá því í undan­keppninni.

Íslendingarnir í höllinni létu vel í sér heyra meðan stelpurnar kepptu.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Andrea Sif mætt aftur á dýnuna

Stelpurnar fóru næst á dýnuna og það vakti mikla at­hygli að sjá Andrea Sif Péturs­dóttir, landliðs­fyrir­liði, var mætt fremst í röðina til að stökkva en það eru rúmir níu mánuðir síðan hún sleit hásin á dýnunni á EM í fyrra. Hásinin fór í síðasta stökkinu hennar er liðið tryggði sér titilinn.

Fyrir mót var búið að gefa út að Andrea myndi bara keppa á gólfi og ekki stökkva en það verður að teljast virki­lega já­kvætt fyrir lands­liðið að hún sé mætt aftur á dýnuna.

Andrea Sif (t.h). stökk ekki á dýnunni í undankeppninni en hún var mætt óvænt inn í stökkröðina í dag.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Ásta Kristins­dóttir endaði allar um­ferðir Ís­lands á dýnunni og flaug hún manna hæst bæði þegar hún gerði tvö­falt aftur á bak heljar­stökk með beinum líkama og tvö­faldri skrúfu en hún endur­tók síðan leikinn með tvö­falt heljar með beinum líkama og ein­faldri skrúfu og lokaði þannig frammi­stöðu Ís­lands á dýnunni.

Ísland endaði með 17,650 á dýnunni 0,150 meira en Svíþjóð fékk á dýnu og leiddi liðið öll lið eftir tvær umferðir. Það var því mikið undir fyrir síðustu umferðina.

Fullkomið trampólín sigldi silfrinu heim

Stelpurnar enduðu síðan daginn á trampólíni en gerðu fullkomið trampólín. Allar stelpurnar lentu stökkin sín og ætlaði allt um koll að keyra þegar Ásta endaði mótið með yfirslagi og einni hálfri skrúfu sem hún lenti auðveldlega.

Sjáðu síðustu stökkumferð stelpnanna á mótinu hér að neðan.

Svíar fóru næst á gólf og Danir áttu eftir að stökkva á dýnu en það var ljóst eftir þessa trampólín frammistöðu Íslands að það yrði mjög mjótt á mununum.

Öflugt gólf hjá Svíunum tryggði þeim hins vegar titilinn að lokum. Frammistaða Íslenska liðsins í dag var hins vegar frábær þá sér í lagi vegna þess að fimm nýjar stelpur komu inn í liðið frá því í fyrra.