Kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Finnlandi í tveimur æfingarleikjum sem fara fram um miðjan júní sem er hluti af undirbúningi Íslands fyrir undankeppni EM.

Leikirnir fara fram á sama tíma og HM í knattspyrnu sem þýðir að þeir fara fram á alþjóðlegum leikdögum og ættu allir leikmenn að geta gefið kost á sér.

Liðin mætast 13. júní í Turku og fjórum dögum síðar í Espoo og hefjast leikirnir klukkan 15:30 að íslenskum tíma.

Ísland og Finnland hafa mæst sjö sinnum og hefur Ísland til þessa unnið tvo leiki, tveimur lokið með jafntefli og Finnar unnið þrjá.

Tíu ár eru liðin síðan liðin mættust síðast þar sem leiknum lauk með jafntefli.

Fyrsti leikur Íslands í undankeppni EM 2021 fer fram á Laugardalsvelli 29. ágúst næstkomandi þegar Ungverjaland kemur í heimsókn.