Með tveimur sigrum á Kýpur og Japan í nýafstöðnu landsleikjahléi er íslenska kvennalandsliðið í fyrsta sinn ekki lengur með neikvætt sigurhlutfall.

Öruggur 4-0 sigur Íslands á Kýpur var 113. sigur liðsins í öllum keppnum og er Ísland með 42 prósenta sigurhlutfall í 270 leikjum. Jafn­teflin eru 44 og tapleikirnir 113.

Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt A-landslið í knattspyrnu nær að jafna hlutföllin yfir sigra og tapleiki.

Íslenska kvennalandsliðið átti erfitt uppdráttar í fyrstu leikjum sínum frá því að fyrsti kvennalandsleikurinn fór fram árið 1981.

Fyrsti sigurinn kom í níunda leik og vann Ísland sextán sigra í 67 leikjum fyrstu tuttugu ár kvennalandsliðsins með markatölu upp á tæplega áttatíu mörk í mínus.

Frá því í ársbyrjun 2001 hefur margt breyst á stuttum tíma. Íslenska kvennalandsliðið hefur komist á fjögur Evrópumót í röð og er í harðri baráttu um sæti í lokakeppni HM sem fer fram í Ástralíu árið 2023.

Um leið hefur kvennalandsliðinu tekist að rétta af sigurhlutfallið, þannig að nú hafa Stelpurnar okkar unnið jafn marga leiki og þær hafa tapað frá upphafi.

Þá hafa þær á síðustu rúmlega tuttugu árum skorað 159 mörkum meira en andstæðingar þeirra.