Þrjár konur verða í hlutverki dómara og þrjár í hlutverki aðstoðardómara í lokakeppni Heimsmeistaramótsins í Katar síðar á þessu ári.

Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnti í dag hvaða 129 dómarar yrðu í lokakeppni HM.

Athygli vekur að Yamashita Yoshimi frá Japan, Salima Mukansanga frá Rúanda og Stephanie Frappart frá Frakklandi eru á listanum.

Þær verða fyrstu konurnar til að dæma leiki á HM karla í knattspyrnu.

Neuza Back frá Brasilíu, Karen Diaz Medina frá Mexíkó og Kathryn Nesbit frá Bandaríkjunum verða í hlutverki aðstoðardómara og verða um leið fyrstu konurnar til að gegna þessu starfi á HM karla.