Lítið hefur heyrst frá knatt­spyrnu­deild Ung­menna­fé­lags Sel­foss eftir að fyrrum leik­maður fé­lagsins, pólski varnar­maðurinn Chris Jastrzembski greindi frá því í við­tali í Pól­landi á dögunum að hann hefði upp­lifað mis­munun vegna upp­runa síns á sínum tíma hjá fé­laginu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í for­mann knatt­spyrnu­deildar Sel­foss til að fá við­brögð við full­yrðingum Chris.

Þjálfari liðsins, Dean Martin, kannast ekki við málið og tjáir sig lítið sem ekkert um það en for­maður aðal­stjórnar Ung­menna­fé­lags Sel­foss segir knatt­spyrnu­deild fé­lagsins vera afla gagna. Enn sem komið er hefur engin opinber yfirlýsing frá deildinni um málið.

Pólski knatt­spyrnu­maðurinn Chris Jastrzembski, fyrrum leik­maður Sel­foss segist hafa orðið fyrir mikilli mis­munun á Ís­landi frá því að hann gekk til liðs við Sel­foss í mars­mánuði en Chris yfir­gaf fé­lagið í síðasta mánuði.

Enda­lok á sam­starfi knatt­spyrnu­deildar Sel­foss við Chris komu á ó­vart, hann var orðinn þunga­miðja í varnar­línu liðsins en í yfir­lýsingu sem deildin gaf frá sér sagði að Chris hafi óskað eftir því að vera leystur undan samningi af per­sónu­legum á­stæðum

Yfirlýsing Selfyssinga um brotthvarf Selfoss
Mynd: Skjáskot

Nú tæpum mánuði eftir endalok samstarfsins birtist viðtal við Chris á vef pólska miðilsins Gazeta þar sem hann segist hafa orðið mikilli mismunun yfir tíma sinn hjá knattspyrnuliði Selfoss. Það hafi stafað af því að hann væri pólskur, félagið hafi komið verr fram við hann vegna þess.

,,Félagið kom verr fram við mig vegna þess að ég var með pólskt vegabréf," Chris í samtali við Gazeta.

Þá segist Chris fengið að heyra af því sem túlka má sem grófir fordómar af hálfu starfsmanns Ungmennafélagsins Selfoss á íþróttasvæði félagsins. Sem hafi látið eitthvað í líkingu við eftirfarandi orð falla eftir óhapp Chris í vinnu fyrir félagið:

'Fari hann til fjandans. Hann er bara Pólverji. Ef hann drepst þá eru margir Pólverjar sem geta komið í staðinn," segir Chris að starfsmaðurinn hafi sagt við konu á svæðinu sem hafði verið að aðstoða Chris.

„Ég veit ekki neitt um þetta"

Fréttablaðið hefur undanfarna daga reynt að ná tali af Jóni S. Sveinssyni, formanni knattspyrnudeildar Selfoss en án árangurs.

Dean Martin, þjálfari liðsins sagðist í samtali við Fréttablaðið í gær ekki vera búinn að lesa fréttaflutning um viðtalið við Chris en að hann hafi þó heyrt af málinu. Hann vildi ekki tjá sig mikið meira um málið. ,,Ég veit ekki neitt um þetta," sagði Dean í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður að því hvort hann hafi orðið var við vanlíðan Chris á meðan tíma hans stóð hjá Selfossi eða hvort leikmaðurinn hafi leitað til hans hafði Dean þetta að segja: ,,Alls ekki."

Helgi Sigurður Haraldsson, formaður aðalstjórnar UMF Selfoss segir í samtali við Fréttablaðið í dag að um sé að ræða mál sem knattspyrnudeild félagsins sé að vinna í að afla sér gagna um til þess að bregðast við.

„Það er víst í þessu eins og mörgum öðrum málum tvær hliðar á öllu. Knattspyrnudeildin fer nú yfir málið og setur saman greinargerð um það. Deildin vill taka sér tíma í að fara yfir öll samskipti við viðkomandi aðila áður en þeir fara að stökkva til og segja eitthvað út í loftið.“