Það má með sanni segja að Edinson Cavani hafi látið ákveðinn hóp stuðningsmanna Manchester United fara í taugarnar á sér eftir síðasta leik liðsins á tímabilinu sem endaði með 1-0 tapi gegn Crystal Palace. Eftir leik gaf Cavani stuðningsmönnum puttann þegar hann steig upp í liðsrútu félagsins.

Cavani er á förum frá Manchester United á frjálsri sölu þar sem samningur hans er að renna út. Hann spilaði 15 leiki fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skoraði aðeins tvö mörk.

Myndband hefur farið í dreifingu á samfélagsmiðlum eftir það sem var síðasti leikur Cavani í leikmannahóp Manchester United. Cavani sést þar gefa ákveðnum stuðningsmönnum Manchester United puttann eftir að þeim tókst að fara í taugarnar á honum.

Cavani gekk til liðs við Manchester United á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain í október árið 2020 og hann spilaði alls 59 leiki fyrir félagið, skoraði 19 mörk og gaf 7 stoðsendingar.

Ítalski knattspyrnusérfræðingurinn Fabrizio Romano segir að Úrúgvæski framherjinn horfi nú hýru auga til spænsku úrvalsdeildarinnar.