KSÍ ákvað í dag að fresta öllum leikjum og skipulögðum landsliðsæfingum á meðan samkomubann íslenskra stjórnvalda stendur yfir.

Stjórn KSÍ tók þessa ákvörðun en segir að ákvörðun verði tekin um leik Íslands og Rúmeníu eftir fund hjá UEFA.

Íslensk yfirvöld hafa ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur (samkomubann) frá og með miðnætti sunnudaginn 15. mars.

Samkomubannið gildir í fjórar vikur frá þeim tímapunkti og nær yfir samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman.

Vegna þessa ákvað stjórn KSÍ á fundi sínum í dag að fresta öllum leikjum á vegum KSÍ, sem og landsliðsæfingum og tengdum viðburðum á fyrrgreindu tímabili.

Ákvörðunin tekur gildi frá og með deginum í dag, 13. mars. Stjórn KSÍ hvetur aðildarfélögin til að fara í öllu eftir tilmælum stjórnvalda varðandi útfærslu á sínu starfi, viðburðum og æfingahaldi.