Geir Þorsteinsson, heiðursformaður KSÍ og núverandi framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, ritaði nokkuð harðorðan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann gagnrýnir KSÍ fyrir að hafa ekki veitt íslenskum félagsliðum meiri fjárhagslegan stuðning.

„Það getur ekki talist ásættanlegt að KSÍ leiti ekki allra leiða til að nýta sér heimildir UEFA og FIFA, nú þegar við íslenskum knattspyrnufélögum blasir versta staða til rekstrar í manna minnum. Það er ekki ásættanlegt að KSÍ gefi þær skýringar að hverri krónu hafi verið ráðstafað þegar ljóst má vera að mörg hefðbundin verkefni sambandsins falla niður á þessu ári og verkefnum framtíðar megi forgangsraða í þágu stuðnings við íslensk knattspyrnufélög,“ skrifaði Geir. Hann vildi litlu bæta við þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Það sem ég skrifa þarna eru staðreyndir. Það geta allir séð þessar upplýsingar enda opinber gögn. Það hefur bara ekkert verið gert.“

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir rétt hjá Geir að fjárhagsstaða KSÍ sé sterk og eiginfjárstaðan sé góð. „Við erum með töluvert handbært fé til umráða en það er að stórum hluta, eins og komið hefur fram, fyrirframgreiddar tekjur til reksturs sambandsins. Við höfum þegar gripið til nokkurra aðgerða bæði í apríl og maímánuði með fyrirframgreiðslu til aðstoðar aðildarfélögunum og erum einmitt að fara yfir næsta aðgerðapakka á stjórnarfundi.

Þetta erum við búin að fara yfir og skýra fyrir félögunum nú þegar á fundum og gerum líka næstu daga. Geir hefur nú setið nokkra af þessum fundum og ætti því að vera fullkunnugt um þetta allt saman. Við höfum stillt upp sviðsmyndum fyrir félögin og fyrir KSÍ og tekið ákvörðun byggða á þeim,“ segir Guðni.

Hann segir að KSÍ sé að teygja sig eins langt og verjandi er án þess að taka áhættu með fjárhag KSÍ. „Við höfum leitast við að vanda til verka og gera þetta af ábyrgð og fengið Deloitte með okkur í þessa vinnu. Við munum og erum að teygja okkur eins langt og verjandi er án þess að taka áhættu með fjárhag KSÍ. Ég heyrði ekki annað á fundunum en það væri full sátt með það og þessar aðgerðir. Við erum að taka stóran hluta af handbæru eigið fé sambandsins til þess að koma til móts við þau fjárhagsvandræði sem steðja að félögunum en við megum ekki heldur gleyma að KSÍ er einnig að glíma við vanda sem ekki liggur ljóst fyrir hve stór verður.“

Í pistli sínum vakti Geir athygli á því að félög í efstu deild hafi óskað eftir fjárhagsstuðningi hjá KSÍ sem flestir formenn félaganna skrifuðu undir. Ekki hafi borist svar frá stjórn KSÍ. Guðni segir að bréfið hafi verið dregið til baka af þeim sjálfum á fundi með KSÍ og ÍTF falið að senda erindi. „Það hefur legið ljóst fyrir frá byrjun þessa faraldurs að KSÍ myndi bregðast við. Það hefur ekki þurft erindi til þess.“

Guðni bendir á að á síðustu þremur árum hefur KSÍ greitt um 600 milljónir króna út til aðildarfélaganna og jafnframt staðið straum af dómarakostnaði upp á tæpar 500 milljónir á sama tímabili. „Nú mun enn bætast við þá upphæð um mánaðamótin.“

Guðni Bergsson
Geir Þorsteinsson