Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur samþykkt að styrkja rannsóknarverkefni Eureka Golf um eina og hálfa milljón króna, eða fimm hundruð þúsund á ári næstu þrjú árin. Verkefnið varðar bindingu kolefnis með slegnu grasi og KSÍ sá hag í því enda er gras einfaldlega gras, hvort sem það er á golfvelli eða knattspyrnuvelli.

Ingi Sigurðsson, formaður mannvirkjanefndar KSÍ, segir að verkefnið sé spennandi og knattspyrnan geti nýtt sér þann fróðleik sem fæst með verkefninu.

„Þetta er stórt og mikið verkefni sem snýr fyrst og fremst að golfvöllum en þetta tengist víða. KSÍ fékk erindið inn á borð til sín, hvort áhugi væri á að nýta sér upplýsingarnar fyrir knattspyrnuvelli. Mannvirkjanefndin fór í gegnum það, og þeir sem þekkja vel til varðandi þessi mál, hvernig við gætum komið að málinu til að nýta fyrir knattspyrnuna,“ segir Ingi. Á síðasta stjórnarfundi KSÍ var einnig tekið fyrir bréf til aðildarfélaga í kjölfar bréfs ECHA, Efnastofnunar Evrópu, frá því í júní 2019 um innfylliefni gervigrasvalla. Samþykkti stjórn KSÍ að senda bréf til aðildarfélaga um málið og í framhaldinu til sveitarfélaga. Í bréfinu verður vísað í leiðbeiningar á heimasíðu ECHA um málið.

„Það fjallar um þetta míkróplast. Innfylliefni á gervigrasvöllum flokkast undir míkróplast. Þess vegna koma gervigrasvellir inn á þeirra borð. Þetta er mál sem hefur verið í gangi og UEFA hefur verið að ræða við stofnunina fyrir hönd knattspyrnusambanda,“ segir Ingi.

Hann segir að ekki hafi tekist að finna jafngott efni og dekkjakurlið þegar kemur að innfylliefni á gervigrasi.

„Knattspyrna á norðurslóðum er háð gervigrasi. Það er áskorun fyrir þá sem eru að framleiða gervigrasið að finna umhverfisvænni innfylliefni því dekk sem slík eru auðvitað ekkert ólögleg eða slæm en um leið og þau eru kurluð þá fellur það undir míkróplast.

Það er spennandi tilraun í gangi í Svíþjóð sem önnur Norðurlönd eru að horfa til. Sú snýst um hvernig er hægt að koma í veg fyrir að dekkjakurl fari af vellinum og í holræsin. Það dekkjakurl sem fari í völlinn upphaflega haldist innan hans.“