Ekki hafa borist frekari skýringar á starfslokum Eiðs Smára frá Knattspyrnusambandi Íslands. Fréttablaðið hefur reynt að ná sambandi við Vöndu Sigurgeirsdóttir, formann KSÍ en án árangurs.

Heimildir DV herma að brotthvarf Eiðs tengist gleðskap á vegum Knattspyrnusambands Íslands sem sambandið bauð til eftir leik íslenska karlalandsliðsins gegn Norður-Makedóníu er liðið lauk keppni í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fyrr í mánuðinum.

Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður landsliðsnefndar KSÍ sagði í samtali við fotbolti.net að um sameiginlega ákvörðun hefði verið að ræða en neitaði að tjá sig um ástæðuna fyrir brotthvarfi Eiðs Smára.

Á mánudaginn síðastliðinn hafði DV samband við Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ eftir að hafa fengið ábendingu þess efnis að sambandið ætlaði að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára. Einnig talaði blaðamaður DV við Ásgrím Helga Einarsson, formann landsliðsnefndar og hvorugt þeirra vildi tjá sig um málið þegar leitað var eftir því.

Yfirlýsing KSÍ frá því í gærkvöldi:

Stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen hafa komist að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla. Samkomulagið snýr að því að virkjað hefur verið endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var milli hans og KSÍ og mun hann láta af störfum 1. desember næstkomandi.

Eiður Smári, sem lék á sínum tíma 88 A-landsleiki og skoraði í þeim 26 mörk, hefur verið í þjálfarateymi liðsins frá desember 2020 og starfað með því í öllum leikjum ársins 2021 – þremur vináttuleikjum og 10 leikjum í undankeppni HM 2022.

„Samkomulag um starfslok mín voru tekin með hagsmuni mína, landsliðsins og KSÍ að leiðarljósi. Ég vil þakka öllum innan sambandsins fyrir frábært samstarf undanfarið ár. Síðasta ár hefur verið mjög krefjandi bæði innan vallar sem og utan bæði fyrir mig persónulega sem og sambandið. Áfram Ísland!“ segir Eiður Smári.

KSÍ þakkar Eiði Smára fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.