Knattuspyrnusamband Íslands er með til umfjöllunar mál Eiðs Smára Guðjohnsen, fótboltastjörnu og aðstoðarþjálfara A landsliðs karla, vegna hegðunar hans í miðbæ Reykjavíkur.

Málið varðar myndband sem hefur farið á dreifingu um samfélagsmiðla þar sem Eiður sést kasta af sér vatni á Ingólfstorgi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ á Twitter. „Við vitum af málinu, erum að afla frekari upplýsinga og skoða næstu skref og munum upplýsa um framhaldið við fyrsta tækifæri.“

Ferillinn mögulega í hættu

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að framtíð Eiðs Smára væri í hættu vegna myndbandsins. Í þeirri frétt kom fram að sambandið væri búið að setja Eiði afarkosti, að fara í áfengismeðferð eða að missa starfið sem annar þjálfari landsliðsins.

Hann tók við liðinu ásamt Arnari Þór Viðarssyni í vetur eftir að hafa unnið saman með U21 ára lið Íslands þar áður.