KSÍ hefur sent félögum drög að Íslandsmóti fyrir sumarið 2020 og hafa þau nú til 12. maí til að koma með sínar athugasemdir. „Við verðum þó að hafa í huga að það er ekki búið að heimila keppni ennþá. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki opnað á það,“ sagði Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, í kynningu sinni í gær.

KSÍ boðaði til blaðamannafundar í höfuðstöðvum sínum í gær þar sem farið var yfir komandi Íslandsmót. Mikið hefur mætt á Birki að undanförnu og viðurkenndi hann að frídagur verkalýðsins hefði ekki verið nýttur til að fara í skrúðgöngu enda ekki létt verk að setja saman um fimm þúsund leiki, þar af 3.780 yngriflokkaleiki.

„Að endurraða mótinu er ekki létt verk og það kemur væntanlega eitthvað af athugasemdum frá félögunum sem þarf að taka tillit til,“ segir Birkir. „Við teygjum okkur langt til að uppfylla óskir félaganna. Við reynum það eftir fremsta megni,“ bætir hann við.

Valgeir Sigurðsson, formaður mótanefndar KSÍ, tók til máls á fundinum í gær og sagði að búið væri að raða Íslandsmótinu oftsinnis upp. Flækjustigið væri mikið enda margt sem þyrfti að hafa í huga. Birkir sagði í sinni kynningu að svigrúmið til að fresta leikjum væri lítið, álagið yrði mikið á vellina og ferðalögum í miðri viku í neðri deildunum myndi fjölga. Þá væru 3.800 dómarastörf en KSÍ kemur þó ekki að skipulagningu allra dómara. „Frídagur verkalýðsins var ekki nýttur í kröfugöngu hér á bæ. Það er búið að vinna hér mikið síðustu daga og nætur,“ segir mótastjórinn.

Knattspyrnudómarar eru með lausan samning og hefur ekki verið skrifað undir. Það þarf ansi marga dómara til að dæma þá fimm þúsund leiki sem KSÍ hefur umsýslu með. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að allt sé þó á réttri leið. „Við erum að ganga frá þeim samningum. Við erum búin að ræða við dómarana og það hefur gengið vel.“

Guðni er bjartsýnn á gott fótboltasumar. „Það er búið að vera óvissa og mörg vandamál að glíma við, bæði rekstrarlega og annars staðar. Nú held ég að allir séu tilbúnir að hefja leik og gera það besta í stöðunni. Ég get rétt ímyndað mér tilhlökkun leikmanna á öllum aldri að fara að æfa, hittast í klefanum og ég held að þetta verði skemmtilegt mót með mikilli leikgleði.“

Svo er að sjá hvort heilbrigðisyfirvöld gefi grænt ljós.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, er bjartsýnn á gott fótboltasumar. Hann segir að dómarar muni skrifa undir samning innan skamms. fréttablaðið/Valli