Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir að þau hafi aðeins séð yfirlýsingu UEFA um tilvonandi leikvöll kvennalandsliðsins á EM í sumar en að forráðamenn UEFA hafi ekki haft samband.

„Við hjá KSÍ höfum ekki fengið nein viðbrögð í sjálfu sér. Ég hef bara séð svarið frá UEFA sem var til umfjöllunar í fjölmiðlum,“ sagði Vanda í samtali við Fréttablaðið, aðspurð hvort að KSÍ hefðu borist viðbrögð frá UEFA.

Í gær fór Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins hörðum orðum um ákvörðun UEFA að notast við völl akedemíuliðs Manchester City á Evrópumóti kvenna. Ísland leikur tvo leiki á vellinum sem tekur sjö þúsund manns í sæti og eru uppselt á báða leikina.

Ummæli Söru vöktu heimsathygli og tók Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, tók í sama streng og Sara og gagnrýndi ákvörðun UEFA í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Fyrr í dag barst tilkynning frá evrópska knattspyrnusambandinu að völlurinn sem um ræðir sé keppnisvöllur og verðugur leikvangur fyrir Evrópumótið.

Vanda bætti því við að KSÍ hefði lýst yfir óánægju með leikvanginn í aðdraganda mótsins.

„Við mótmæltum þessari ákvörðun áður en drátturinn fór fram, á meðan honum stóð og eftir hann, þótt að við vissum ekki að okkar leikir yrðu þarna í byrjun. Við vissum að þetta væri of lítill völlur og höfum lýst yfir óánægju okkar oftar en einu sinni,“ segir Vanda og heldur áfram:

„Það er jákvætt að það er búið að breyta kröfunum fyrir næsta Evrópumót þar sem gerð er krafa um að allir leikvangar taki að minnsta kosti 15 þúsund manns.“