Knatt­spyrnu­sam­band Ís­lands hefur sent frá sér yfir­lýsingu þar sem þau segjast trúa þol­endum og biðja þá inni­legrar af­sökunar.

„Knatt­spyrnu­hreyfingin er hluti af sam­fé­laginu, og við þurfum öll sem sam­fé­lag að gera betur í því að taka utan um þol­endur og berjast gegn kyn­ferðis­of­beldi,“ er meðal þess sem segir í yfir­lýsingu Knatt­spyrnu­sam­bandsins.

Allir starfs­menn KSÍ voru boðaðir á fund klukkan 16:00 í dag og í kjöl­farið var til­kynnt um af­sögn Guðna Bergs­sonar, formanns sam­bandsins. Vara­for­menn KSÍ, þau Gísli Gísla­son og Borg­hildur Sigurðar­dóttir, munu taka við störfum formanns tíma­bundið.

Þá heitir stjórnin því að setja á lag­girnar fag­hóp sem mun rann­saka þau of­beldis­mál sem komið hafa upp innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar og biðla til þol­enda og þeirra sem hafa upp­lýsingar um slík mál að leita til þeirra:

„Við munum taka vel á móti ykkur, við viljum að málin fari í við­eig­andi far­veg og viljum tryggja að á­byrgð of­beldis verði sett á réttan stað, á herðar ger­enda en ekki þol­enda,“ segir í yfir­lýsingunni sem lesa má í heild hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Yfir­lýsing KSÍ í heild sinni:

Kæru þol­endur, við í stjórn Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands trúum ykkur og biðjum ykkur inni­lega af­sökunar. Við vitum að við sem á­byrgðar­aðilar höfum brugðist ykkur og við ætlum okkur að gera betur. Stjórnin hefur fundað undan­farna daga um þær al­var­legu á­sakanir sem beinst hafa að sam­bandinu að undan­förnu um þöggun kyn­ferðis­brota. Við lítum málið afar al­var­legum augum. Nú þegar hefst vinna með utan­að­komandi fag­aðilum um að endur­skoða öll við­brögð við kyn­ferðis­brotum og of­beldi innan hreyfingarinnar og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þol­endur. Fag­hópur verður settur á lag­girnar og heitir stjórn KSÍ því að taka á þessum málum af al­vöru og festu og fylgja ráð­leggingum fag­hópsins. Við viljum auk þess biðja þol­endur eða aðra sem hafa upp­lýsingar um al­var­legt of­beldi innan hreyfingarinnar að leita til okkar. Við munum taka vel á móti ykkur, við viljum að málin fari í við­eig­andi far­veg og viljum tryggja að á­byrgð of­beldis verði sett á réttan stað, á herðar ger­enda en ekki þol­enda.

Við ætlum að lag­færa þá hluti sem farið hafa af­laga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar með það fyrir augum að öll sem að starfi þess koma fái upp­lifað vel­ferð og öryggi, um leið og hlustað er á þol­endur og til­lit tekið til þeirra hags­muna.

Vegna yfir­lýsingar sem stjórnin sendi frá sér þann 17. ágúst sl. þar sem brugðist var við á­sökunum um of­beldi leik­manna karla­lands­liðsins, er rétt að taka fram að yfir­lýsingin byggðist á tak­mörkuðum upp­lýsingum sem þá lágu fyrir hjá stjórn, en þar vantaði gögn og frekari upp­lýsingar, sem hafa komið í ljós á síðari stigum. Við biðjum Hönnu Björgu Vil­hjálms­dóttur og aðra sem stóðu í fram­línu þess að benda á of­beldið innan KSÍ af­sökunar á yfir­lýsingunni sem gerði lítið úr þeirra á­sökunum og var laus við alla á­byrgð og ein­lægni.

Fyrir liggur að for­maður stjórnar KSÍ hefur sagt af sér og þannig gengist við á­byrgð á með­ferð þeirra mála sem til um­fjöllunar hafa verið. Þar til annað verður á­kveðið munu vara­for­menn stjórnar sinna verk­efnum sem eru á hendi formanns. Allir stjórnar­menn hafa í­hugað stöðu sína. Til að tryggja ó­rofna starf­semi sam­bandsins þá er niður­staða stjórnar að skyn­sam­legt sé að hún sitji á­fram fram að næsta árs­þingi KSÍ sem haldið verður í febrúar á næsta ári en þá verður kosið til stjórnar.

Við viljum í­treka að al­mennt starfs­fólk KSÍ hefur unnið verk sín af alúð og trú­mennsku og ber enga á­byrgð á þeirri at­burðar­rás sem hefur verið í gangi.

Þessi mikla bylgja sem dunið hefur á síðustu vikur hreyfði við okkur öllum. Sem hluti af stærstu sjálf­boða­liða­hreyfingu á Ís­landi skiptir máli hvað KSÍ segir og gerir. Við höfum aldrei verið jafn með­vituð um þetta eins og núna og munum leita hjálpar sam­fé­lagsins til að gera rót­tækar breytingar, hlúa að þol­endum og vera hluti af lausninni. Þetta verk­efni mun taka tíma, en við ætlum að hefjast handa strax.

Knatt­spyrnu­hreyfingin er hluti af sam­fé­laginu, og við þurfum öll sem sam­fé­lag að gera betur í því að taka utan um þol­endur og berjast gegn kyn­ferðis­of­beldi.

Stjórn KSÍ: Ás­geir Ás­geirs­son, Bjarni Ólafur Birkis­son, Björn Frið­þjófs­son, Borg­hildur Sigurðar­dóttir, Gísli Gísla­son, Guð­jón Bjarni Hálf­dánar­son, Ingi Sigurðs­son, Jakob Skúla­son, Jóhann Torfa­son, Magnús Gylfa­son, Orri Vignir Hlöð­vers­son, Ragn­hildur Skúla­dóttir, Tómas Þór­odds­son, Val­geir Sigurðs­son, Þor­steinn Gunnars­son og Þór­oddur Hjalta­lín.