Myndskeið sem birtist á samfélagsmiðlum í gær, eftir leik Stjörnunnar og Aftureldingar í Olísdeild karla í handbolta, hefur vakið töluverða athygli en þar sést starfsmaður Stjörnunnar á leiknum rjúka í Gunnar Malmquist, leikmann Aftureldingar í fagnaðarlátum liðsins sem vann 26-29 sigur á Garðbæingum.
Margir hafa spurt sig hvað hafi eiginlega átt sér stað þarna og Fréttablaðið leitaði því til Gunnars til þess að fá alla sólarsöguna.
,,Þetta varð nú ekkert að miklu veseni," segir glaðbeittur Gunnar í samtali við Fréttablaðið. ,,Við vorum sem sagt að fagna sigrinum þarna saman eftir leik með stuðningsmönnum, við strákarnir í Aftureldingu. Ég fer bara í minn vanalega gír eftir sigurleiki, dreg fólk að mér og síðan förum við í það að hefja sigursöng sem við förum ávalt í eftir sigurleiki."
Gunnar hefur reglulega staðið fyrir sameiginlegu fagni milli leikmanna og stuðningsfólks Aftureldingar eftir sigurleiki liðsins í Olísdeildinni. Fagnið felur það meðal annars í sér að hann lemur í auglýsingaskilti til að mynda takt.
,,Ég ber aðeins í LED skilti í eigu Stjörnunnar sem er fyrir aftan mig og sparka örlítið í það og þá fæ ég, að ég tel, fyrrverandi landsliðsmann Sigurð Bjarnason á mig og hann tekur ágætlega á kallinum."
Gunnar segist vanur því að hafa auglýsingaskilti úr plasti fyrir aftan sig þegar hann hefur verið að taka þetta fagn, skilti sem kosta ekki eins mikið og LED skiltin sem er að finna í Garðabæ hjá Stjörnunni.
,,Hann hefur haft áhyggjur af skiltunum sínum. Sigurður hefur sjálfur farið í gegnum nokkra handboltaleiki og væntanlega tapað nokkrum þannig ég efast um að hann hafi reiðst út í fagnaðarsönginn okkar. Ég vona allavegana ekki, þá hefur hann ekki lært mikið.
Við sættumst bara eftir þetta, ég tók í spaðann á honum og baðst innilegrar afsökunar á þessu. Það eru tilfinningar í þessu og svona getur gerst, það er bara þannig. Maður reynir að hafa eins gaman að þessu og maður getur."
Gunnar, sem leikur lykilhlutverk í varnarleik Aftureldingar er vanur að þurfa að taka á mönnum innan vallar og að tekið sé á honum en þessu bjóst hann ekki við eftir leik.
,,Mér brá þvílíkt, hélt samt fyrst að þetta væri einhver liðsfélagi en svo var ekki. Þá allt í einu fengu þessi fagnaðarlæti snemmbúinn endi og það fauk aðeins í menn. Ég bjóst alls ekki við þessu."
Atvikið má sjá hér fyrir neðan:
Jahérna hér, voðalega eru menn litlir þarna í garðabænum, allt eðlilegt við það að starfsmaður hrindi leikmanni hjá andstæðingnum. pic.twitter.com/s2GML8Mw8p
— Gunnar Pétur Haraldsson (@gunniiip) December 4, 2022
Í fínum málum í deildinni.
Með sigrinum gegn Stjörnunni í gærkvöldi náðu Mosfellingar að svara fyrir sig eftir erfitt tap gegn FH í umferðinni þar á undan. Gunnar segir stemninguna í leikmannahópi Aftureldingar mjög góða á þessari stundu.
,,Það eru allir bara ferskir en auðvitað laskaðir eftir leik gærkvöldsins. Við munum hins vegar gera okkar allra besta til að reyna stríða þessum Völsurum."
Valsarar eru akkúrat næsti andstæðingur Aftureldingar í Olísdeildinni. Það dylst engum hversu góðir Valsmenn eru þessa stundina, besta handboltalið Íslands um þessar mundir. Þeir leiða deildina með sex stiga forskot á FH og Aftureldingu, sem sitja jöfn að stigum í öðru og fjórða sæti deildarinnar, og hafa einnig verið að gera flotta hluti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar
,,Þeir eru á feiknagóðu skriði þessa dagana og ekki margir sem endilega búast við einhverju frá okkur í leik gegn þeim en við ætlum hins vegar að gera okkar allra besta til að færast nær þeim á toppnum."