Mynd­skeið sem birtist á sam­fé­lags­miðlum í gær, eftir leik Stjörnunnar og Aftur­eldingar í Olís­deild karla í hand­bolta, hefur vakið töluverða at­hygli en þar sést starfs­maður Stjörnunnar á leiknum rjúka í Gunnar Mal­mquist, leik­mann Aftur­eldingar í fagnaðar­látum liðsins sem vann 26-29 sigur á Garðbæingum.

Margir hafa spurt sig hvað hafi eigin­lega átt sér stað þarna og Frétta­blaðið leitaði því til Gunnars til þess að fá alla sólar­söguna.

,,Þetta varð nú ekkert að miklu veseni," segir glað­beittur Gunnar í sam­tali við Frétta­blaðið. ,,Við vorum sem sagt að fagna sigrinum þarna saman eftir leik með stuðnings­mönnum, við strákarnir í Aftur­eldingu. Ég fer bara í minn vana­lega gír eftir sigur­leiki, dreg fólk að mér og síðan förum við í það að hefja sigur­söng sem við förum á­valt í eftir sigur­leiki."

Gunnar hefur reglu­lega staðið fyrir sam­eigin­legu fagni milli leik­manna og stuðnings­fólks Aftur­eldingar eftir sigur­leiki liðsins í Olís­deildinni. Fagnið felur það meðal annars í sér að hann lemur í aug­lýsinga­skilti til að mynda takt.

,,Ég ber að­eins í LED skilti í eigu Stjörnunnar sem er fyrir aftan mig og sparka ör­lítið í það og þá fæ ég, að ég tel, fyrr­verandi lands­liðs­mann Sigurð Bjarna­son á mig og hann tekur á­gæt­lega á kallinum."

Gunnar segist vanur því að hafa aug­lýsinga­skilti úr plasti fyrir aftan sig þegar hann hefur verið að taka þetta fagn, skilti sem kosta ekki eins mikið og LED skiltin sem er að finna í Garða­bæ hjá Stjörnunni.

,,Hann hefur haft á­hyggjur af skiltunum sínum. Sigurður hefur sjálfur farið í gegnum nokkra hand­bolta­leiki og væntan­lega tapað nokkrum þannig ég efast um að hann hafi reiðst út í fagnaðar­sönginn okkar. Ég vona alla­vegana ekki, þá hefur hann ekki lært mikið.

Við sættumst bara eftir þetta, ég tók í spaðann á honum og baðst inni­legrar af­sökunar á þessu. Það eru til­finningar í þessu og svona getur gerst, það er bara þannig. Maður reynir að hafa eins gaman að þessu og maður getur."

Gunnar, sem leikur lykil­hlut­verk í varnar­leik Aftur­eldingar er vanur að þurfa að taka á mönnum innan vallar og að tekið sé á honum en þessu bjóst hann ekki við eftir leik.

,,Mér brá því­líkt, hélt samt fyrst að þetta væri ein­hver liðs­fé­lagi en svo var ekki. Þá allt í einu fengu þessi fagnaðar­læti snemm­búinn endi og það fauk að­eins í menn. Ég bjóst alls ekki við þessu."

Atvikið má sjá hér fyrir neðan:

Í fínum málum í deildinni.

Með sigrinum gegn Stjörnunni í gær­kvöldi náðu Mos­fellingar að svara fyrir sig eftir erfitt tap gegn FH í um­ferðinni þar á undan. Gunnar segir stemninguna í leik­manna­hópi Aftur­eldingar mjög góða á þessari stundu.

,,Það eru allir bara ferskir en auð­vitað laskaðir eftir leik gær­kvöldsins. Við munum hins vegar gera okkar allra besta til að reyna stríða þessum Völsurum."

Val­sarar eru akkúrat næsti and­stæðingur Aftur­eldingar í Olís­deildinni. Það dylst engum hversu góðir Vals­menn eru þessa stundina, besta hand­bolta­lið Ís­lands um þessar mundir. Þeir leiða deildina með sex stiga for­skot á FH og Aftur­eldingu, sem sitja jöfn að stigum í öðru og fjórða sæti deildarinnar, og hafa einnig verið að gera flotta hluti í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar

,,Þeir eru á feikna­góðu skriði þessa dagana og ekki margir sem endi­lega búast við ein­hverju frá okkur í leik gegn þeim en við ætlum hins vegar að gera okkar allra besta til að færast nær þeim á toppnum."