Hópur stuðningsmanna Króatíu, hefur komið sér fyrir í stúkunni í Búdapest fyrir leik Íslands og Króatíu í milliriðlum EM í handbolta, með risastóran risastórum borða þar sem komið er á framfæri þökkum til Íslands.

,,Takk fyrir Ísland - 19/12/1991. Króatar munu aldrei gleyma!" stendur á borðanum en þakkirnar tengjast því að Ísland var árið 1991 fyrsta ríkið til þess að viðurkenna sjálfstæði Króatíu frá Júgóslavíu.

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV, varpaði athygli á þessum borða króatísku stuðningsmannanna en hann er staddur í Búdapest um þessar mundir.

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 14:30 en um er að ræða afar mikilvægan leik fyrir Ísland sem getur með sigri tekið skref nær undanúrslitum mótsins.

Króatar hafa hins vegar að litlu að keppa. Liðið hefur ekki möguleika á að tryggja sér sæti í undanúrslitum.