Ísland hefur leik á heimsmeistaramótinu í handbolta karla síðdegis í dag þegar liðið mætir Króatíu í fyrstu umferð í B-riðli mótsins. Fyrir fram er talið að Spánverjar séu með sterkasta liðið í riðlinum, Króatía standi skör neðar og Ísland og Makedónía muni berjast um þriðja og síðasta sætið í milliriðli mótsins.

Íslenska liðið getur hins vegar klárlega náð í annaðhvort eitt eða tvö stig í þessum leik ef liðið leikur sinn besta leik og sú leikaðferð sem Guðmundur Þórður Guðmundsson og aðstoðarmenn velja gengur upp. Stig í þessum leik gæti reynst gulls ígildi þar sem íslenska liðið mun ef að líkum lætur taka það með sér í milliriðil ef liðið kemst þangað.

Stefán Árnason, þjálfari karlaliðs KA, verður álitsgjafi Fréttablaðsins á mótinu. Hann segist vera spenntur fyrir því að sjá hvar ungt, efnilegt og spennandi lið Íslands stendur gegn sterkustu þjóðum heims. Hann segir leikinn við Króatíu verða erfiðan en raunhæfur möguleiki sé á sigri.

„Króatar eru með fínt lið, en eru ekki jafn sterkir að mínu mati og þeir hafa verið undanfarna tvo áratugi. Þeir eru að ganga í gegnum lykilleikmannaskipti líkt og við höfum verið að gera undanfarin misseri. Það hafa fimm til sex lykilleikmenn horfið á braut frá síðasta stórmóti og ungir leikmenn eru að taka við keflinu hjá þeim. Hinn frábæri markvörður Mirko Alilovic er hættur, hægri skyttan Marko Kopljar og línumaðurinn sterki Igor Vori eru hættir og þar er skarð fyrir skildi. Þá hafa þeir til að mynda misst sterka leikmenn sem hafa séð um að binda saman varnarleik liðsins í áraraðir. Þeir eru svo að glíma við meiðsli þannig að það eru skörð í þeirra liði,“ segir Stefán um króatíska liðið.

Króatía leikur undir stjórn Lino Cervar, en undir hans stjórn höfnuðu Króatar í fjórða sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum og í fimmta sæti á Evrópumótinu sem fram fór í Króatíu fyrir ári.

„Lykilleikmenn í liðinu þessa stundina eru hin gríðarlega góða skytta Domagoj Duvnjak og hinn frábæri leikstjórnandi Luka Cindric. Þeir hafa svo á að skipa frábærum hornamönnum. Þeir eru með líkamlega sterkt lið og munu byggja liðið upp á öflugri vörn og skipulögðum og taktískum varnarleik. Þá er Cervar þekktur fyrir að spila mikið sjö á móti sex og ég býst við að þeir spili það mikið með tveimur þungum og líkamlega sterkum línumönnum sem eiga að skapa pláss fyrir útilínuna og hornin sem og að binda vörnina niður á línuna. Þeir eru oft lengi í gang á stórmótum og toppa á réttum tíma. Það gæti komið okkur til góða í þessum leik,“ segir Stefán um eiginleika króatíska liðsins.

„Guðmundur gæti neyðst til þess að spila með vörnina aftar en hann vill helst gera. Íslenska liðið mun hins vegar verða aðgangshart í sínum varnarleik. Ná eins mörgum fríköstum og möguleiki er og það verða hraðaupphlaup og seinni bylgja sem verða lykillinn að sigri í þessum leik,“ segir hann um líklegt leikplan íslenska liðsins.

„Íslenska liðið hefur verið að æfa seinni bylgjuna markvisst í æfingaleikjunum í aðdraganda mótsins og við höfum séð línumennina spila bæði vörn og sókn og Ólafur Gústafsson tekur þátt í seinni bylgju hraðaupphlaupunum og lagt er upp með að reyna að klára hraðar sóknir liðsins með þeim leikmönnum sem stóðu vörnina. Guðmundur vill helst hafa bara eina skiptingu milli varnar og sóknar til þess að geta sprengt hraðann upp þegar það á við eins og til að mynda á morgun,“ segir Stefán enn fremur um líklega sviðsmynd af leiknum.

„Við getum svo alveg spilað vel sex á móti sex í uppstilltum sóknum. Við erum með fljóta og tæknilega góða leikmenn í útilínunni sem hafa mikinn leikskilning. Þrátt fyrir ungan aldur hjá leikmönnum á borð við Elvar Örn Jónsson og Gísla Þorgeir Kristjánsson eru þetta leikmenn sem eru kvikir á fæti og hafa leikskilning.

Þeir eru vanir að spila leiki þar sem mikið er undir, komist langt með yngri landsliðum og leikið í Evrópukeppnum með félagsliðum sínum. Ég hef því engar áhyggjur af sóknarleiknum hjá okkur þó að ábyrgðin sé á herðum ungra leikmanna. Ég er þvert á móti bara mjög spenntur,“ segir Stefán um komandi verkefni hjá íslenska lið[email protected]