Þýska knatt­spyrnu­sam­bandið mun í næstu viku hefja ítar­lega vinnu við að greina Heims­meistara­mótið í knatt­spyrnu hjá þýska karla­lands­liðinu sem beið af­hroð í Katar og féll úr leik í riðla­keppninni.

Miklar væntingar voru gerðar til liðsins sem var í riðli með Spán­verjum og svo minni spá­mönnum á borð við Japan og Kosta-Ríka.

For­seti þýska knatt­spyrnu­sam­bandsins, Bernd Neu­endorf segir von­brigðin mikil.

,,Þetta er af­skap­lega sárs­auka­fullt en við verðum að horfa fram á við og sam­bandið mun leiða vinnu sem miðar að því að finna bestu leiðina út úr þessu."

Þýska­land er gest­gjafa­þjóð Evrópu­mótsins árið 2024 og vill sam­bandið að þýska lands­liðið berjist um sigur á því móti.

Í næstu viku munu Neu­endord, lands­liðs­þjálfarinn Hansi Flick, liðs­stjórinn Oli­ver Bier­hoff á­samt fram­kvæmdar­stjóra þýska knatt­spyrnu­sam­bandsins funda.

Hansi Flick, landsliðsþjálfari Þýskalands
Fréttablaðið/GettyImages

,,Væntingarnar standa til að við fáum ítar­lega greiningu á frammi­stöðu liðsins á þessu móti og hvernig á­fram verður heldið með til­liti til EM 2024 á okkar heima­velli.

Greiningin mun einnig taka mið af þróun liðsins frá árinu 2018. Það eru kröfurnar sem við höfum og í kjöl­farið munu eiga sér stað við­ræður."

Staða lands­liðs­þjálfarans Hansi Flick er talin mjög völt en engin á­kvörðun hefur þó verið um fram­tíð hans.