Valiantsina Kaminskaya sem keppti fyrir hönd Úkraínu í þremur keppnisgreinum í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum féll á lyfjaprófi í Peking og er því komin í bann frá keppni.

Um leið verða tímar hennar ógildir á Ólympíuleikunum. Með því færist Kristrún Guðnadóttir upp um eitt sæti í tíu kílómetra sprettgöngu þar sem Valiantsina kom fimm sekúndum á undan Kristrúnu í mark.

Það fundust sterar og annað ólöglegt efni í sýni Kaminsku sem hefur lokið keppni á Vetrarólympíuleikunum og komst ekki á verðlaunapall í neinni grein.

Besti árangur hennar á Ólympíuleikunum þetta árið var átjánda sætið

Með því er hún þriðja manneskjan sem fellur á lyfjaprófi á Vetrarólympíuleikunum á eftir rússnesku skautakonunni Kamilu Valievu og íranska skíðakappanum Hossein Saveh Shemshaki.

Alþjóðalyfjaeftirlitið greindi frá því að í sýni sem var tekið á þriðjudaginn fannst mesterolone og heptaminol.

Þetta var í þriðja sinn sem Kaminska keppir á Vetrarólympíuleikunum en í fyrsta sinn fyrir hönd Úkraínu.

Hún keppti áður fyrir hönd Hvíta-Rússlands í Sochi árið 2014 og PyeongChang árið 2018.