Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, hefur ekki átt sjö dagana sæla í upphafi veru sinnar hjá franska liðinu Denain Voltaire, en hann gekk til liðs við liðið í sumar. 

Hann hefur glímt við veikindi í maga undanafarna viku og eftir að hafa hrist þá magakveisu af sér mætti hann á æfingu með liðinu í kvöld og snéri sig þar illa á ökkla. 

Kristófer er sem betur fer ekki brotinn, en hlaut slæma tognun og er bæði marinn og illa bólginn. 

Hann verður frá næstu þrjár vikurnar vegna þessara meiðsla og missir af leikjum liðsins í riðlakeppni í franska bikarnum sem fram fara á föstudaginn og þriðjudaginn. 

Þá missir hann af fyrsta deildarleik liðsins sem leikur í frönsku B-deildinni, en stefnir á að vera orðinn klár í tæka tíð fyrir annan deildarleik liðsins þar á eftir.