Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, hefur ákveðið að yfirgefa herbúðir KR-inga. Kristófer greinir frá þessu í færslu á Instagram-síðu sinni.

Þar segir Kristófer að ástæðan fyrir brottför sinni sé ágreiningur við stjórn körfuboltadeildar KR sem ekki hafi verið mögulegt að leysa að hans sögn.

Enn fremur segir þessi öflugi leikmaður að ekki liggi fyrir hver verði næsti áfangastaður hjá honum. Kristófer hefur hins vegar verið sterklega orðaður við Valsmenn undanfarnar vikur.

Þar myndi hann hitta fyrir sína fyrrverandi samherja hjá KR, þá Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinski. Auk þess myndi hann leika undir stjórn Finns Freys Stefánssonar sem þjálfaði Kristófer um skeið hjá KR og þjálfar hann hjá íslenska landsliðinu.

Kristófer var valinn besti leikmaður Domino's deildarinnar árin 2018 og 2019 og þar að auki besti leikmaður úrslitakeppninnar og varnarmaður ársins vorið 2018.