Kristján Andrésson, fyrrum landsliðsþjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta, hefur áhuga á því að taka við íslenska landsliðinu. Frá þessu greindi hann í hlaðvarpsþættinum Handkastið. Leit stendur nú yfir að nýjum landsliðsþjálfara eftir starfslok Guðmundar Guðmundssonar.
Þessi fyrrum íslenski landsliðsmaður starfar nú sem íþróttastjóri hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu GUIF en fyrir það hafði hann verið þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Rhein-Neckar Löwen.
Kristján vakti á sínum tíma mikla athygli sem landsliðsþjálfari sænska landsliðsins á árunum 2016-2020. Undir stjórn Kristjáns vann sænska landsliðið meðal annars til silfurverðlauna á EM árið 2018.
Kristján var spurður að því hreint út í hlaðvarpsþættinum Handkastið hvort hann hefði áhuga á því að taka við íslenska karlalandsliðinu í handbolta.
„Já, ég held að ég deili þeim áhuga með mörgum þjálfurum og mörgum sérfræðingum heima á Íslandi,“ svaraði Kristján.
Aðspurður segist hann þó ekki hafa heyrt í forráðamönnum HSÍ varðandi starfið.
„Nei, ekki síðustu daga og vikur. Ég var síðast í sambandi við HSÍ árið 2015 eða 2016, þegar að Geir Sveinsson var á endanum ráðinn landsliðsþjálfari. Eftir það liðu nokkrir mánuðir og á endanum heyrði sænska handknattleikssambandið í mér.“
Aðspurður hvort það skipti máli fyrir hann hvort landsliðsþjálfara starfið væri hlutastarf eða fullt starf hafði Kristján þetta að segja:
„Ég myndi þá bara spyrja HSÍ á móti hvert markmið með ráðningu nýs landsliðsþjálfarans ætti að vera. Til þess að vera við toppinn í handboltaheiminum þarftu að vera með þjálfara í fullu starfi.
Þú ert að keppa á móti þjóðum á borð við Svíþjóð, Noreg, Frakkland og Danmörku og öll þau lið eru með þjálfara í fullu starfi. Ég tel þetta vera einu liðina til þess að geta keppt við þessi lið.“
Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins hér fyrir neðan, þar er meðal annars rætt um stöðuna á íslenska landsliðinu og sláandi frammistöðu liðsins gegn Tékkum í gær: