Kristján Andrés­son, fyrrum lands­liðs­þjálfari sænska karla­lands­liðsins í hand­bolta, hefur á­huga á því að taka við ís­lenska lands­liðinu. Frá þessu greindi hann í hlað­varps­þættinum Hand­kastið. Leit stendur nú yfir að nýjum landsliðsþjálfara eftir starfslok Guðmundar Guðmundssonar.

Þessi fyrrum ís­­lenski lands­liðs­­maður starfar nú sem í­þrótta­stjóri hjá sænska úr­vals­deildar­fé­laginu GUIF en fyrir það hafði hann verið þjálfari þýska úr­vals­deildar­fé­lagsins R­hein-Neckar Löwen.

Kristján vakti á sínum tíma mikla at­hygli sem lands­liðs­­þjálfari sænska lands­liðsins á árunum 2016-2020. Undir stjórn Kristjáns vann sænska lands­liðið meðal annars til silfur­­verð­­launa á EM árið 2018.

Kristján var spurður að því hreint út í hlað­varps­þættinum Hand­kastið hvort hann hefði á­huga á því að taka við ís­lenska karla­lands­liðinu í hand­bolta.

„Já, ég held að ég deili þeim á­huga með mörgum þjálfurum og mörgum sér­fræðingum heima á Ís­landi,“ svaraði Kristján.

Að­spurður segist hann þó ekki hafa heyrt í for­ráða­mönnum HSÍ varðandi starfið.

„Nei, ekki síðustu daga og vikur. Ég var síðast í sam­bandi við HSÍ árið 2015 eða 2016, þegar að Geir Sveins­son var á endanum ráðinn lands­liðs­þjálfari. Eftir það liðu nokkrir mánuðir og á endanum heyrði sænska hand­knatt­leiks­sam­bandið í mér.“

Að­spurður hvort það skipti máli fyrir hann hvort lands­liðs­þjálfara starfið væri hluta­starf eða fullt starf hafði Kristján þetta að segja:

„Ég myndi þá bara spyrja HSÍ á móti hvert mark­mið með ráðningu nýs lands­liðs­þjálfarans ætti að vera. Til þess að vera við toppinn í hand­bolta­heiminum þarftu að vera með þjálfara í fullu starfi.

Þú ert að keppa á móti þjóðum á borð við Sví­þjóð, Noreg, Frakk­land og Dan­mörku og öll þau lið eru með þjálfara í fullu starfi. Ég tel þetta vera einu liðina til þess að geta keppt við þessi lið.“

Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins hér fyrir neðan, þar er meðal annars rætt um stöðuna á íslenska landsliðinu og sláandi frammistöðu liðsins gegn Tékkum í gær: