Kristinn Hrafnsson, ristjóri WikiLeaks segir erfitt að lýsa stemningunni sem braust út á götum Buenos Aires í Argentínu í gærkvöldi, þar sem hann er nú staddur, eftir að argentínska landsliðið í knattspyrnu tryggði sér sigur á heimsmeistaramótinu með sigri á Frökkum í úrslitaleiknum. Þetta séu þó tíðindi sem argentínska þjóðin hafi þurft á að halda.
,,Það var nú býsna merkilegt að vera hérna í höfuðborginni Buenos Aires þegar að Argentínumenn náðu þessum gríðarlega ánægjulega áfanga," segir Kristinn við Fréttablaðið en hann hefur verið á flakki um Suður-Ameríku undanfarnar vikur og var meðal annars í Argentínu þegar landsliðið tryggði sæti í úrslitaleiknum sjálfum.
,,Maður upplifði sérstaka stemningu á sínum tíma þegar að Argentína tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með sigri gegn Króatíu. þá upplifði maður þetta eins og heimsmeistaratitillinn væri nú þegar í höfn.
Ég brá mér úr landi milli leikja en kom aftur til Argentínu í gærmorgun í þetta andrúmsloft þar sem allt samfélagið nötraði.“

Hefur vantað jákvæðar fréttir í líf argentínsku þjóðarinnar
Kristinn segir mjög erfitt að lýsa því í orðum hvernig ástandið á götum Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu var í gær.
,,Það var í raun eins og það hefði orðið sprenging hér þegar að úrslitin lágu fyrir og Argentína hafði unnið HM.
Það nötraði allt, göturnar voru tómar á meðan á leik stóð en síðan þustu allir út á götu borgarinnar þegar úrslitin lágu fyrir. Menn þeyttu bílflautur og í raun orguðu af gleði.
Væntingarnar í garð liðsins hafi verið alveg gríðarlega miklar.
,,Menn verða líka að átta sig á því hversu rosalega mikilvægt þetta er fyrir þessa þjóð. Það hefur vantað einhverja jákvæðni í samfélagið hérna, jákvæða innspýtingu.“
Ástandið í Argentínu hafi verið mjög erfitt en nú vakni von.
,,Það var bara kominn tími á það hér að argentínska þjóðin fengi eitthvað til að trúa á. Ef það er eitthvað sem argentínska þjóðin trúir meira á heldur en sína páfa þá er það fótboltinn og fótboltahetjur landsins.
Ég held að tiltrúin á því að þetta gæti orðið raunin, að Argentína yrði heimsmeistari, hafi vaxið jafnt og þétt eftir því sem leið á. Þá fundu menn einnig fyrir meðbyr, það vildu allir að Argentínumenn sigruðu, vildu allir að Messi fengi þetta tækifæri.
Ég var í Brasilíu áður en ég kom hingað til Argentínu. Þar voru menn komnir á þann stað að vilja helst sjá Argentínu sigra eftir að Brasilía féll úr leik. Það þykir nú saga til næsta bæjar að erkifjendurnir séu farnir að halda með Argentínu.“

Líkt og um sigur í styrjöld hafi verið að ræða
Við leikslok í gær, þegar ljóst var að Argentína væri orðið heimsmeistari knattspyrnu í þriðja sinn í sögunni, losnaði um fjötra.
,,Það er eins og það hafi verið hlaðið í einhverja tilfinningabombu sem síðan sprakk með látum. Eftir leik gekk ég um miðborgina í áttina að Obelisco minnisvarðanum þar sem fjöldi fólks hafði safnast saman og það er vart hægt að lýsa stemningunni sem þar ríkti.
Ég horfði bara á mannhafið hoppa og dansa með látum fyrir framan mig, fólk klifraði upp á strætóskýli og upp ljósastaura. Þarna var fólk á öllum aldri samankomið, foreldrar þustu út með börnin sín. Það var sungið, hleypt af knallettum og reyksprengjur sprengdar.“

Líkt og um sigur í styrjöld hafi verið um að ræða.
,,Nema í þeim tilfellum eru tilfinningarnar alltaf blandaðar trega og sorg í garð þeirra föllnu. Hér ríkir taumlaus gleði og ótrúlega fallegt að mörgu leiti að hafa fengið að upplifa þetta.
Þjóðarandinn lyftist og ég tel það alveg klárt að þetta mun gera eitthvað stórt fyrir Argentínu. Fótbolti er miklu meira en bara fótbolti hér í Suður-Ameríku.
Menn hafa farið í styrjaldir í rómönsku Ameríku út af landsleikjum. Hérna dregur þetta þjóðina saman og býr til eina einingu.“
Annar hver maður í Argentínu hafi undanfarið verið klæddur treyju argentínska landsliðsins
,,Og um 80% af þeim treyjum eru merktar með tölustafnum 10 að sjálfsögðu.“

Táknrænn sigur
Kristinn segist skynja uppgang í Suður-Ameríku þessa dagana, sigurinn hafi mikla þýðingu fyrir álfuna en sér í lagi Argentínu.
,,Þó það hafi fjarað undan efnahagslega og þjóðin farið í gegnum alls kyns kollsteypur, til að mynda herstjórn, þá er þetta mikil menningarþjóð og fótboltinn samfélagslímið.
Ég hef farið um alla Suður-Ameríku undanfarnar vikur, álfan er að rísa. Í mínum huga er það táknrænt að heimsmeistaratitillinn endi hér akkúrat núna þegar að álfan er að rísa, hrista af sér óværu fasismans og ná sér á strik.“

Að berjast fyrir málstaðnum
Það er hins vegar ekki Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem hefur dregið Kristinn til Suður-Ameríku. Hann er þar að berjast fyrir ákveðnum málstað og hugsjón sinni
,,Sem er sú að binda endi á eina alvarlegustu árás á blaðamennsku í heiminum sem beinist gegn Julian Assange.“

Assange, stofnandi Wikileaks hefur verið í haldi í fangelsi í Bretlandi frá árinu 2019. Nú er verið að berjast gegn framsali til Bandaríkjanna í dómssal í London. Assange er eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna ásakana um samsæri og njósnir í kjölfar leka WikiLeaks á hundruð þúsunda skjala sem tengjast stríðunum í Afganistan og Írak á árunum 2010 og 2011.
,,Undanfarið hefur komið fram rísandi þrýstingur á hinum pólitíska vettvangi á ríkisstjórn Joe Biden, Bandaríkjaforseta og aldrei að vita nema hún sjái að sér og hætti þessum pólitísku ofsóknum.“