Kristinn Hrafns­­son, ristjóri Wiki­­Leaks segir erfitt að lýsa stemningunni sem braust út á götum Buenos Aires í Argentínu í gær­­kvöldi, þar sem hann er nú staddur, eftir að argentínska lands­liðið í knatt­­spyrnu tryggði sér sigur á heims­­meistara­­mótinu með sigri á Frökkum í úr­­slita­­leiknum. Þetta séu þó tíðindi sem argentínska þjóðin hafi þurft á að halda.

,,Það var nú býsna merki­legt að vera hérna í höfuð­borginni Buenos Aires þegar að Argentínu­menn náðu þessum gríðar­lega á­nægju­lega á­fanga," segir Kristinn við Frétta­blaðið en hann hefur verið á flakki um Suður-Ameríku undan­farnar vikur og var meðal annars í Argentínu þegar lands­liðið tryggði sæti í úr­slita­leiknum sjálfum.

,,Maður upp­lifði sér­staka stemningu á sínum tíma þegar að Argentína tryggði sér sæti í úr­slita­leiknum með sigri gegn Króatíu. þá upp­lifði maður þetta eins og heims­meistara­titillinn væri nú þegar í höfn.

Ég brá mér úr landi milli leikja en kom aftur til Argentínu í gær­morgun í þetta and­rúms­loft þar sem allt sam­fé­lagið nötraði.“

Götur Buenos Aires fylltust af fólki
Aðsend mynd: Kristinn Hrafnsson

Hefur vantað jákvæðar fréttir í líf argentínsku þjóðarinnar

Kristinn segir mjög erfitt að lýsa því í orðum hvernig á­standið á götum Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu var í gær.

,,Það var í raun eins og það hefði orðið sprenging hér þegar að úr­slitin lágu fyrir og Argentína hafði unnið HM.

Það nötraði allt, göturnar voru tómar á meðan á leik stóð en síðan þustu allir út á götu borgarinnar þegar úr­slitin lágu fyrir. Menn þeyttu bíl­flautur og í raun orguðu af gleði.

Væntingarnar í garð liðsins hafi verið alveg gríðar­lega miklar.

,,Menn verða líka að átta sig á því hversu rosa­lega mikil­vægt þetta er fyrir þessa þjóð. Það hefur vantað ein­hverja já­kvæðni í sam­fé­lagið hérna, já­kvæða inn­spýtingu.“

Á­standið í Argentínu hafi verið mjög erfitt en nú vakni von.

,,Það var bara kominn tími á það hér að argentínska þjóðin fengi eitt­hvað til að trúa á. Ef það er eitt­hvað sem argentínska þjóðin trúir meira á heldur en sína páfa þá er það fót­boltinn og fót­bolta­hetjur landsins.

Ég held að til­trúin á því að þetta gæti orðið raunin, að Argentína yrði heims­meistari, hafi vaxið jafnt og þétt eftir því sem leið á. Þá fundu menn einnig fyrir með­byr, það vildu allir að Argentínu­menn sigruðu, vildu allir að Messi fengi þetta tæki­færi.

Ég var í Brasilíu áður en ég kom hingað til Argentínu. Þar voru menn komnir á þann stað að vilja helst sjá Argentínu sigra eftir að Brasilía féll úr leik. Það þykir nú saga til næsta bæjar að erki­fjendurnir séu farnir að halda með Argentínu.“

Gleðuin
Fréttablaðið/GettyImages

Líkt og um sigur í styrjöld hafi verið að ræða

Við leiks­lok í gær, þegar ljóst var að Argentína væri orðið heimsmeistari knattspyrnu í þriðja sinn í sögunni, losnaði um fjötra.

,,Það er eins og það hafi verið hlaðið í ein­hverja til­finninga­bombu sem síðan sprakk með látum. Eftir leik gekk ég um mið­borgina í áttina að Obelisco minnis­varðanum þar sem fjöldi fólks hafði safnast saman og það er vart hægt að lýsa stemningunni sem þar ríkti.

Ég horfði bara á mann­hafið hoppa og dansa með látum fyrir framan mig, fólk klifraði upp á strætó­skýli og upp ljósa­staura. Þarna var fólk á öllum aldri saman­komið, for­eldrar þustu út með börnin sín. Það var sungið, hleypt af knallettum og reyk­sprengjur sprengdar.“

Fólk safnaðist saman við Obelisco minnisvarðann eftir leik
Fréttablaðið/GettyImages

Líkt og um sigur í styrj­öld hafi verið um að ræða.

,,Nema í þeim til­fellum eru til­finningarnar alltaf blandaðar trega og sorg í garð þeirra föllnu. Hér ríkir taum­laus gleði og ó­trú­lega fal­legt að mörgu leiti að hafa fengið að upp­lifa þetta.

Þjóðar­andinn lyftist og ég tel það alveg klárt að þetta mun gera eitt­hvað stórt fyrir Argentínu. Fót­bolti er miklu meira en bara fót­bolti hér í Suður-Ameríku.

Menn hafa farið í styrj­aldir í rómönsku Ameríku út af lands­leikjum. Hérna dregur þetta þjóðina saman og býr til eina einingu.“

Annar hver maður í Argentínu hafi undan­farið verið klæddur treyju argentínska lands­liðsins

,,Og um 80% af þeim treyjum eru merktar með tölu­stafnum 10 að sjálf­sögðu.“

Treyjur Argentínu númer 10 eru vinsælar
Fréttablaðið/GettyImages

Táknrænn sigur

Kristinn segist skynja upp­gang í Suður-Ameríku þessa dagana, sigurinn hafi mikla þýðingu fyrir álfuna en sér í lagi Argentínu.

,,Þó það hafi fjarað undan efna­hags­lega og þjóðin farið í gegnum alls kyns koll­steypur, til að mynda her­stjórn, þá er þetta mikil menningar­þjóð og fót­boltinn sam­fé­lagslímið.

Ég hef farið um alla Suður-Ameríku undan­farnar vikur, álfan er að rísa. Í mínum huga er það tákn­rænt að heims­meistara­titillinn endi hér akkúrat núna þegar að álfan er að rísa, hrista af sér ó­væru fas­ismans og ná sér á strik.“

Trúin flytur fjöll
Fréttablaðið/GettyImages

Að berjast fyrir málstaðnum

Það er hins vegar ekki Heims­meistara­mótið í knatt­spyrnu sem hefur dregið Kristinn til Suður-Ameríku. Hann er þar að berjast fyrir á­kveðnum mál­stað og hug­sjón sinni

,,Sem er sú að binda endi á eina al­var­legustu árás á blaða­mennsku í heiminum sem beinist gegn Juli­an Ass­an­ge.“

Baráttan fyrir lausn Assange og hindrun framsals heldur áfram
Fréttablaðið/GettyImages

Ass­an­ge, stofnandi Wiki­leaks hefur verið í haldi í fangelsi í Bret­landi frá árinu 2019. Nú er verið að berjast gegn fram­sali til Banda­ríkjanna í dóms­sal í London. Ass­an­ge er eftir­lýstur í Banda­ríkjunum vegna á­sakana um sam­særi og njósnir í kjöl­far leka Wiki­Leaks á hundruð þúsunda skjala sem tengjast stríðunum í Afgan­istan og Írak á árunum 2010 og 2011.

,,Undan­farið hefur komið fram rísandi þrýstingur á hinum pólitíska vett­vangi á ríkis­stjórn Joe Biden, Banda­ríkja­for­seta og aldrei að vita nema hún sjái að sér og hætti þessum pólitísku of­sóknum.“