Kristian Hlynsson, hinn 18 ára gamli miðjumaður Ajax, hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við hollenska stórliðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Kristian semur við Ajax til sumarsins 2026 en hann hefur minnt rækilega á sig hjá liðinu undanfarna mánuði og er um þessar mundir einn efnilegasti knattspyrnumaður Íslands.

Kristian gekk til liðs við Ajax frá Breiðablik í janúar árið 2020 og hóf að leika með yngri liðum félagsins. Það var síðan þann 15. desember síðastliðinn sem hann þreytti frumraun sína í keppnisleik með aðalliði félagsins.

,,Mér finnst gaman að geta skrifað undir nýjan samning í viðurvist fjölskyldu minnar, þau eru stolt af mér. Mér finnst það frábært að félagið hafi líka trú á mér og vonandi get ég endurgoldið traustið sem mér er sýnt," sagði Kristian eftir að hafa skrifað undir nýjan samning við Ajax.

Hann hefur spila tvo aðalliðsleiki fyrir Ajax og skorað í báðum leikjunum og mun án efa fá tækifæri í framtíðinni með liðinu.