Tilkynnt var fyrr í þessari viku að eitt stærsta rafíþróttamót heims, League of Legends Mid-Season Invitational, yrði haldið í Laugardalshöll í maí næstkomandi. Í framhaldi af því verður svo haldið alþjóðlegt mót í tölvuleiknum Valorant.

Allt í allt mun rafíþróttafólk vera hér með herbúðir sínar í rúman mánuð. Mótið fer fram í Laugardalshöll og er því búið að leigja alla þjóðarhöllina undir þetta verkefni í rúman mánuð.

Um fjögur hundruð manns koma til landsins í tengslum við mótin og mun þetta hafa áhrif á aðra íþróttastarfsemi sem fram fer alla jafna í Laugardalshöll. Þar á meðal eru frjálsar íþróttir, en aðstaðan í Laugardalshöll er eina innanhússaðstaðan á höfuðborgarsvæðinu sem nothæf er fyrir frjálsíþróttafólk, eldra en 12-13 ára til æfinga á vorin.

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), segir að þetta muni vissulega hafa áhrif á frjálsíþróttafólk og að fundarhöld séu fram undan milli forsvarsmanna FRÍ og Íþrótta- og tómstundaráðs, ÍTR, um lausn á þessu tímabundna aðstöðuleysi frjálsíþróttafólks.

Freyr segir enn fremur að sú staða sem upp hefur komið sé skýrt merki um þann aðstöðuvanda sem frjálsíþróttafólk búi við og hversu mikil þörf sé á þjóðarleikvangi á höfuðborgarsvæðinu með betri aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.

„Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því að rafíþróttir séu að ryðja sér til rúms hér á landi og við erum ekki fúlir yfir framgangi þeirra, síður en svo.

Það sem veldur okkur gremju er að börn, unglingar og afreksíþróttafólk í frjálsum íþróttum muni missa eina frjálsíþróttahúsið sem nothæft er til æfinga svo heitið geti á höfuðborgarsvæðinu á þeim tímapunkti þegar stutt er í sumarmótin hér heima og afreksfólkið er á leið á alþjóðleg mót þar sem það freistar þess að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í Tókýó í ágúst næstkomandi,“ segir Freyr, um þann árekstur sem verður vegna rafíþróttamótsins.

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Laugardalshöllin verður lokuð vegna rafíþróttamótsins í fjórar til sex vikur og sú tímalengd er eitthvað sem frjálsíþróttafólk í Reykjavík á erfitt með að sætta sig við.

„Eftir erfiðan vetur vegna kóróna­veirufaraldursins þar sem frjálsíþróttafólk gat ekki æft við eðlilegar aðstæður í ár um það bil, þá er erfitt að kyngja þessu nú þegar hlutirnir voru að komast í eðlilegt horf á nýjan leik.

Þessi staða kristallar hversu bágborin aðstaðan til frjálsíþróttaiðkunar er á höfuðborgarsvæðinu og sýnir það svart á hvítu hversu rík þörf er fyrir byggingu þjóðarleikvangs með aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Þegar framkvæmdirnar á Laugardalsvellinum voru í gangi síðasta sumar var Laugardalshöllin opnuð fyrir okkur sem sárabót en nú þurfum við að æfa annars staðar í rúman mánuð vegna þessa atburðar. Þetta er slæm staða sem þarf að leysa úr til frambúðar,“ segir formaðurinn.

Ómar Einarsson, sviðsstjóri Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR), sagði að fundað yrði með forsvarsmönnum frjálsíþróttafélaganna í borginni í dag og þar yrði vonandi fundin farsæl lausn á þessum vanda. Frekari fregna væri að vænta eftir þann fund.

Líklegt þykir að frjálsíþróttafélögin þurfi að færa starfsemi sína tímabundið í Egilshöll, á svæði Breiðabliks eða í Kaplakrika, en það eru þau svæði á höfuðborgarsvæðinu sem búa best hvað frjáls­íþróttaiðkun varðar. Freyr Ólafsson bendir hins vegar á að bæði í Egilshöll og hjá Blikum þurfi oftar en ekki að æfa á sama svæði og tíma og fótboltaæfingar standa yfir, sem gefi augaleið að sé fremur bagalegt.