Kristall Máni Ingason er á förum frá Víkingi Reykjavík. Hann lék sinn síðasta leik á Víkingsvelli í gærkvöldi þegar liðið fékk The New Saints í heimsókn í fyrri leik liðanna í annari umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA.

Leiknum lauk með 2-0 sigri Víkings. Það var viðeigandi að Kristall Máni skoraði bæði mörk síns liðs. Hann skoraði eitt í hvorum hálfleik, bæði af vítapunktinum.

Kristall er á leið til norska stórveldisins Rosenborg. Hann var keyptur þangað á dögunum en Víkingur fékk að halda honum út júlí. „Minn síðasti leikur á Heimavelli Hamingjunnar. Takk fyrir mig Víkingar,“ skrifar Kristall á Twitter-reikning sinn.

Hann hefur þó ekki leikið sinn síðasta leik fyrir Víking. Liðið á eftir að spila tvo leiki í þessum mánuði. Báðir eru þó útileikir, seinni leikurinn gegn The New Saints og útileikur gegn Stjörnunni í Bestu deildinni.