Hefðu ein­hverjir búist við því að restin af tíma­bilinu hjá ný­krýndum heims­meisturum bíla­smiða í For­múlu 1, Red Bull Ra­cing yrði eins og göngu­ferð í garðinum þá fuku þær væntingar langt á haf út í gær­kvöldi í Brasilíu kapp­akstrinum. Það andar köldu á milli öku­manna liðsins eftir keppnina en heims­meistari öku­manna, Max Ver­stappen hefur fengið á sig mikla gagn­rýni fyrir athæfi sitt.

Það mátti heyra spennuna og reiðina hjá báðum öku­mönnum Red Bull Ra­cing, þeim Sergio Perez og Max Ver­stappen, í sam­skipta­kerfi liðsins eftir að þeir óku bílum sínum yfir enda­marks­línuna á Interla­gos brautinni í gær.

At­burða­rásin sem hafði verið sett af stað hjá liðinu, þegar bróður­hluti keppninnar var að baki, á sinn þátt í því.

Upp­haf­lega var Perez, sem er í harðri bar­áttu við Ferrari öku­manninn Charles Leclerc í stiga­keppni öku­manna, á undan Ver­stappen í keppninni en honum skorti hraða á milli­hörðum dekkjum og var hann því beðinn um að hleypa Ver­stappen fram úr sér til þess að hægt væri að sjá hvort hann gæti saxað á Alpine öku­manninn Fernando Alon­so sem var staðsettur einu sæti framar en Perez.

Skila­boðin sem fylgdu til Perez voru þau að Ver­stappen myndi hleypa honum fram úr sér fyrir lok keppninnar ef hann næði ekki Alon­so. Ver­stappen er fyrir löngu búinn að tryggja sér heims­meistara­titil öku­manna og hefur að engu að keppa en hvert stig skiptir Perez máli í bar­áttunni við Leclerc um 2. sætið.

Virti ekki skipanir liðsins

Í stuttu máli sagt þá náði Ver­stappen ekki að taka fram úr Alon­so en að sama skapi tók hann það ekki í mál að hleypa Perez fram úr sér undir lok keppninnar. Þegar sú staða rann upp fyrir liðs­mönnum Red Bull Ra­cing varð allt vit­laus á sam­skiptar­ás liðsins.

„Hafðu ekki á­hyggjur af DRS-svæðinu, hleyptu Perez fram úr, Max," voru fyrstu skila­boðin og svo kom ítrekun: „Hleyptu Perez fram úr, Max.“

En Max Ver­stappen tók fótinn ekki af bensín­gjöfinni og endaði í 6. sæti, einu sæti á undan Sergio Perez. Á meðan endaði Leclerc í 4.sæti og jók bilið milli sín og Perez um sex stig.

Launaði honum ekki greiðann

Sergio Perez var skiljan­lega ekki á­nægður með þessa hegðun Ver­stappen og sendi frá sér skila­boð með kald­hæðnis­legum tón til liðsins eftir keppni. Christian Horn­er, liðs­stjóri Red Bull Ra­cing sá sig knúinn til þess að biðja öku­manninn af­sökunar.

„Þarna sýndi hann sitt rétta eðli," sagði Perez á móti um Max Ver­stappen.

Mörgum finnst Perez í þessari at­burða­rás hafa fengið fremur kaldar kveðjur frá Max Ver­stappen en Perez reyndi heldur betur að gera sitt til að hjálpa honum í bar­áttunni við Sir Lewis Hamilton í loka­keppni síðasta tíma­bils í Abu Dhabi.

Perez átt þar stór­kost­lega frammi­stöðu og sýndi varnar­akstur sem mætti telja með þeim bestu í sögu For­múlu 1, varnar­akstur sem varð til þess að bilið milli Hamilton og Ver­stappen fór niður í ekki neitt.

Í viðtali við Sky Sports eftir keppni gærdagsins mátti sjá að vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Perez í garð Verstappen.

„Eftir allt það sem ég hef gert fyrir hann þá eru þetta mikil vonbrigði í fullri hreinskilni sagt.“

Það voru stíf fundar­höld hjá Red Bull Ra­cing strax eftir að keppni lauk þar sem fundinn sátu báðir öku­menn liðsins á­samt toppunum í liðinu.

Þá er vitnað í Ver­stappen í fjöl­miðlum úti eftir fundinn þar sem hann segist ætla gera allt sem í hans valdi stendur til að að­stoða Perez í bar­áttunni við Leclerc í loka­keppni tíma­bilsins í Abu Dhabi um komandi helgi.