Hefðu einhverjir búist við því að restin af tímabilinu hjá nýkrýndum heimsmeisturum bílasmiða í Formúlu 1, Red Bull Racing yrði eins og gönguferð í garðinum þá fuku þær væntingar langt á haf út í gærkvöldi í Brasilíu kappakstrinum. Það andar köldu á milli ökumanna liðsins eftir keppnina en heimsmeistari ökumanna, Max Verstappen hefur fengið á sig mikla gagnrýni fyrir athæfi sitt.
Það mátti heyra spennuna og reiðina hjá báðum ökumönnum Red Bull Racing, þeim Sergio Perez og Max Verstappen, í samskiptakerfi liðsins eftir að þeir óku bílum sínum yfir endamarkslínuna á Interlagos brautinni í gær.
Atburðarásin sem hafði verið sett af stað hjá liðinu, þegar bróðurhluti keppninnar var að baki, á sinn þátt í því.
Upphaflega var Perez, sem er í harðri baráttu við Ferrari ökumanninn Charles Leclerc í stigakeppni ökumanna, á undan Verstappen í keppninni en honum skorti hraða á millihörðum dekkjum og var hann því beðinn um að hleypa Verstappen fram úr sér til þess að hægt væri að sjá hvort hann gæti saxað á Alpine ökumanninn Fernando Alonso sem var staðsettur einu sæti framar en Perez.
Skilaboðin sem fylgdu til Perez voru þau að Verstappen myndi hleypa honum fram úr sér fyrir lok keppninnar ef hann næði ekki Alonso. Verstappen er fyrir löngu búinn að tryggja sér heimsmeistaratitil ökumanna og hefur að engu að keppa en hvert stig skiptir Perez máli í baráttunni við Leclerc um 2. sætið.
Virti ekki skipanir liðsins
Í stuttu máli sagt þá náði Verstappen ekki að taka fram úr Alonso en að sama skapi tók hann það ekki í mál að hleypa Perez fram úr sér undir lok keppninnar. Þegar sú staða rann upp fyrir liðsmönnum Red Bull Racing varð allt vitlaus á samskiptarás liðsins.
„Hafðu ekki áhyggjur af DRS-svæðinu, hleyptu Perez fram úr, Max," voru fyrstu skilaboðin og svo kom ítrekun: „Hleyptu Perez fram úr, Max.“
En Max Verstappen tók fótinn ekki af bensíngjöfinni og endaði í 6. sæti, einu sæti á undan Sergio Perez. Á meðan endaði Leclerc í 4.sæti og jók bilið milli sín og Perez um sex stig.
Tension after the flag for Max and Checo 🏁#BrazilGP #F1 pic.twitter.com/hyEX5OZwa9
— Formula 1 (@F1) November 13, 2022
Launaði honum ekki greiðann
Sergio Perez var skiljanlega ekki ánægður með þessa hegðun Verstappen og sendi frá sér skilaboð með kaldhæðnislegum tón til liðsins eftir keppni. Christian Horner, liðsstjóri Red Bull Racing sá sig knúinn til þess að biðja ökumanninn afsökunar.
„Þarna sýndi hann sitt rétta eðli," sagði Perez á móti um Max Verstappen.
Mörgum finnst Perez í þessari atburðarás hafa fengið fremur kaldar kveðjur frá Max Verstappen en Perez reyndi heldur betur að gera sitt til að hjálpa honum í baráttunni við Sir Lewis Hamilton í lokakeppni síðasta tímabils í Abu Dhabi.
Perez átt þar stórkostlega frammistöðu og sýndi varnarakstur sem mætti telja með þeim bestu í sögu Formúlu 1, varnarakstur sem varð til þess að bilið milli Hamilton og Verstappen fór niður í ekki neitt.
Í viðtali við Sky Sports eftir keppni gærdagsins mátti sjá að vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Perez í garð Verstappen.
„Eftir allt það sem ég hef gert fyrir hann þá eru þetta mikil vonbrigði í fullri hreinskilni sagt.“
GP de Abu Dhabi - 2021
— Ultrapassagens e disputas na F1, F2 e F3 (@F1Tododia) January 21, 2022
🇬🇧 Lewis Hamilton vs.🇲🇽 Sergio Pérez pic.twitter.com/fDmmHWNFvj
Það voru stíf fundarhöld hjá Red Bull Racing strax eftir að keppni lauk þar sem fundinn sátu báðir ökumenn liðsins ásamt toppunum í liðinu.
Þá er vitnað í Verstappen í fjölmiðlum úti eftir fundinn þar sem hann segist ætla gera allt sem í hans valdi stendur til að aðstoða Perez í baráttunni við Leclerc í lokakeppni tímabilsins í Abu Dhabi um komandi helgi.