Öryggisverðir á Opna ástralska meistaramótinu í tennis báðu áhorfanda um að fara úr bol og fjarlægja borða með áletruninni „Hvar er Peng Shuai?“.

Í kjölfarið hefur farið af stað herferð á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #whereispengshuai þar sem netverjar krefjast svara um afdrif tenniskonunnar.

Skipuleggjendur mótsins segja að ástæðuna vera að skilaboðin á bolnum væru pólitísks eðlis og því bannað samkvæmt reglum mótsins. Þau segja að öryggi og vellíðan tennisstjörnurnar sé þó í forgangi hjá þeim.

Mál Shuai hefur vakið heimsathygli en hún hvarf um skeið eftir að hafa sakað fyrrverandi varaforseta Kína, Zhang Gaoli, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Hún birtist óvænt á tennismóti í nóvember í fyrra og dró ásakanirnar til baka.

Ríkisfjölmiðillinn í Kína birti svo tölvupóst sem var sagður skrifaður af Peng þar sem því var haldið fram að Peng væri ekki týnd og að það væri í lagi með hana, hún væri heima hjá sér að hvílast. Trúverðugleiki tölvupóstsins sem kínverski ríkismiðillinn birti hefur verið dreginn í efa.

Sameinuðu þjóðirnar hafa krafist þess að rannsókn verði sett á laggirnar um afdrif íþróttakonunnar. Sömuleiðis hefur Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, lýst yfir miklum áhyggjum af örlögum hennar.