Fórnarlömb íþróttalæknisins Larry Nassar, þar á meðal Simone Biles, eru að leggja lokahönd á skaðabótakröfu til Alríkislögreglunnar (e. FBI) og dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna upp á einn milljarð dollara fyrir að bregðast ekki við ábendingum um misnotkun Nassar á skjólstæðingum sínum.

Í kærunni fullyrðir Maggie Nichols, fyrrum landsliðskona Bandaríkjanna í fimleikum að Alríkislögreglan hafi fengið veður af kynferðisbrotum Nassar í garð stúlkna árið 2015.

Alríkislögreglan hafi hinsvegar hylmt yfir Nassar í rúmt ár áður en hann var handtekinn. Nassar var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2017.

Rúmlega 330 konur hafa stigið fram og greint frá kynferðisofbeldi af hálfu Nassar sem var læknir bandaríska fimleikasambandsins og Michigan State haskólans í tvo áratugi.

Fimleikasamband Bandaríkjanna, Ólympíunefnd og Ólympíunefnd fatlaðra í Bandaríkjunum, samþykktu undir lok síðasta árs að greiða fórnarlömbum Nassar 380 milljónir dala.

Þá samþykkti Michigan State háskólinn að greiða fórnarlömbunum 500 milljónir dala árið 2018.