Tveir leikir fóru fram í áttundu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu klukkan 17.00 í dag.

KR lagði ÍA að velli með þremur mörkum gegn einu en þetta var fjórði sigur liðsins í röð í deildinni en Skagamenn hafa nú þremur leikjum í röð í deild og bikar.

Það var Pálmi Rafn Pálmason sem kom KR yfir eftir stundarfjórðungs leik úr vítaspyrnu sem dæmd var á Hall Flosason fyrir að fella Kristinn Jónsson.

Óskar Örn Hauksson tvöfaldaði svo forystu KR-liðsins með hnitmiðuðu skoti skömmu síðar. Tobias Thomsen bætti síðan þriðja marki KR-inga við þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Viktor Jónsson minnkað muninn fyrir Skagamenn undir lok leiksins en lengra komst ÍA ekki og sigur KR staðreynd. Sigurinn þýðir að KR er á toppi deildarinnar með 17 stig og Breiðablik og ÍA koma þar á eftir með 16 stig hvort lið.

Valur spyrnti sér svo af botni deildarinnar með glæsilegum 5-1 sigri liðsins gegn ÍBV á Origo-vellinum að Hlíðarenda.

Lasse Petry og Ólafur Karl Finsen skoruðu tvö mörk hvor fyrir Val og Andri Adolpsson eitt. Sigurður Arnar Magnússon skoraði hins vegar mark Eyjaliðsins.

Valur er eftir þennan sigur í níunda sæti deildarinnar með sjö stig en ÍBV vermir botnsætið með fimm stig líkt og HK sem er sæti ofar vegna betri markatölu.