Körfuboltadeild KR staðfesti í morgunsárið þann orðróm sem hafði kvisast um í gær þess efnis að Jón Arnór Stefánsson muni söðla um á Hlíðarenda og leika með Val á komandi keppnistímabili.

„Það er ótrúlega sérstakt að kveðja KR í bili, enda alinn upp hérna, en mér fannst einfaldlega vera kominn tími á nýjar áskoranir. Ég fann að ef ég myndi halda áfram í körfubolta þá þyrfti ég að fara í nýtt umhverfi og ögra mér aðeins. Ég verð alltaf KR-ingur og það breytist ekkert, og það verður pottþétt skrýtið að spila í DHL-höllinni á næsta tímabili í annari treyju en KR treyjunni,“ segir Jón Arnór í fréttatilkynningu á heimasíðu KR þar sem vistaskiptin eru tilkynnt.

„Framlag Jóns Arnórs til KR-liðsins undanfarin ár og í gegnum tíðina þekkja allir. Við skiljum að stundum vill fólk breyta til og við KR-ingar eigum eftir að sakna hans en óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi.

KR-liðið stendur nú á ákveðnum tímamótum og kynslóðaskipti eru í liðinu. Eftir frábæran árangur undanfarin ár, þar sem Jón Arnór hefur verið í lykilhlutverki, er komið að yngri leikmönnum að leiða liðið en það er sem fyrr skipað mjög öflugum kjarna af uppöldum KR-ingum sem munu gera atlögu að öllum titlum,” segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuboltadeildar KR um tíðindin.