Stjórn körfuknattleiksdeildar KR og Francisco Garcia hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna og stúlknaflokks.

KR-ingar hafa leikið tvo leiki á Íslandsmótinu í körfubolta kvenna en liðið laut í lægra haldi fyrir Keflavík í fyrstu umferð deildarinnar og svo tapaði svo naumlega fyrir Skallagrími í annarri umferðinni.

Bandaríkjamaðurinn Mike Denzel mun taka við þjálfun meistaraflokks kvenna og honum til aðstoðar verður Guðrún Arna Sigurðardóttir.

Denzel tekur formlega við liðinu í lok vikunnar og munu því Jóhannes Árnason og Guðrún Arna stjórna liðinu þangað til, meðal annars í leiknum gegn Snæfelli sem fram fer í Stykkishólmi annað kvöld.