Knattspyrnumaðurinn Finnur Tómas Pálmason er að öllum líkindum á leið til sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping frá KR. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðunni fótbolti.net.

Þar segir að KR-ingar hafi samþykkt kauptilboð í Finn Tómas sem sé á leiðinni til Svíþjóðar að semja um kaup og kjör við Norrköping.

Þessi 19 ára gamli varnarmaður braut sér leið inn í KR-liðið árið 2019 og var lykilleikmaður hjá liðinum sem varð Íslandsmeistari það árið.

Finnur Tómas verður liðsfélagi Ísaks Bergmanns Jóhannessonar og Olivers Stefánssonar hjá Norrköping ef að vistaskiptunum kemur en Ísak Bergmann hefur reyndar verið orðaður við brottför frá félaginu.