Knattspyrnudeildir KR og Fram hafa tekið þá ákvörðun að áfrýja ákvörðunum aga- og úrskurðarnefndar knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, sem féllu í gær. Það er visir.is sem greinir frá þessu.

KR-ingar hafa krafist þess að ákvörðun stjórnar KSÍ um að hætta leik á Íslandsmóti og bikarkeppni verði ógild. Vesturbæingar telja annars vegar stjórnina ekki hafa haft heimild til þess að taka þá ákvörðun sem tekin var og hins vegar þykir KR stjórnarmenn KSÍ hafa verið vanhæfa til þess að taka ákvörðunina.

Framarar eru hins vegar að láta á það reyna hvort rétt hafi verið að láta markatölu ráða því hvort Safamýrapiltar eða Leiknismenn færu upp í efstu deild en liðin urðu jöfn að stigum í öðru sæti 1. deildarinnar.

„Við erum búin að taka ákvörðun um að áfrýja. Þessi niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar kom mér svo sem ekkert á óvart að teknu tilliti til fyrri niðurstöðu hennar. Þetta eru sömu dómarar sem sátu í dóminum. Við setjum allt traust okkar á áfrýjunardómstólinn í þessum efnum,“ segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR í samali við visi.is.

„Ég er nokkuð viss um það. Það kom mér náttúrulega á óvart að þetta færi svona. Ég stend í þeirri trú að þeim hafi ekki verið heimilt að nota markaregluna. Ég var þó ánægður með að þetta fengi efnislega meðferð,“ þegar visir.is kannaði hug Fram til úrskurðar aga- og úrskurðarnefndarinnar.