KR mun áfrýja ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að vísa máli KR frá til áfrýjunardómstóls KSÍ eftir að KR kærði ákvörðun KSÍ að stöðva Íslandsmótið þegar því var ekki lokið.

Þetta staðfesti Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Fréttablaðið, rétt eftir að ákvörðun KSÍ var tilkynnt.

KR-ingar voru í baráttunni um Evrópusæti í deild og bikar þegar tímabilið var stöðvað vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Voru því verulegar fjárhæðir undir hjá KR-ingum á lokavikum tímabilsins.

Samkvæmt reglugerð sem KSÍ setti fyrr á þessu ári var miðað við meðalstigafjölda þegar ákveðið var að stöðva Íslandsmótið. Með því missti KR rétt svo af einu af fjórum efstu sætunum.

KR-ingar áttu þó leik inni gegn Stjörnunni sem var í baráttunni við KR um eitt af Evrópusætunum.