KR er komið með yfirhöndina í rimmu sinni við Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta eftir 98-89 sigur liðsins í þriðja leik liðanna í einvíginu í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.

KR er þar af leiðandi komið í 2-1 í viðureigninni en hafa þarf betur í þremur leikjum til þess að tryggja sér sæti í úrslitum. Næsti leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á mánudaginn kemur.

Einn af lyklum þess að KR-liðið fór með sigur af hólmi í þessum leik var sá að leikmönnum liðsins tókst betur upp við að halda Kinu Rochford í skefjum en í fyrstu leikjum seríunnar.

Stigaskorið dreifðist nokkuð jafnt hjá KR-ingum en Kristófer Acox var stigahæstur með 26 stig en hann tók einnig 11 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Julian Boyd kom næstur með 19 stig.

Helgi Már Magnússon kom með góða innkomu af bekknum og skoraði 15 stig og Michele Di Nunno skilaði 13 stigum.

Nikolas Tomsick var atkvæðamestur hjá Þór Þorlákshöfn með 22 stig og Jaka Brodnik fylgdi fast á hæla hans með 18 stig.